Aldrei fleiri úrskurðaðir í gæsluvarðhald

Íslendingar eru að jafnaði lengur í gæsluvarðhaldi heldur en útlendingar, …
Íslendingar eru að jafnaði lengur í gæsluvarðhaldi heldur en útlendingar, meðal annars vegna þess að sumum útlendingum er vísað frá landi. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi/Árni Sæberg

298 manns voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á Íslandi á síðasta ári, þar af voru 70% erlendir ríkisborgarar.

Aldrei áður hafa fleiri verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á einu ári en um er að ræða 150% aukningu frá árinu 2020.

Þetta kemur fram í svari Fangelsismálastofnunar við fyrirspurn mbl.is.

Yfirgnæfandi meirihluti útlendingar

Árið 2024 voru 90 Íslendingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald, sem er talsverð fjölgun frá árinu 2023 þegar 59 Íslendingar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

208 útlendingar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald árið 2024 en árið 2023 voru 182 útlendingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Hlutfall erlendra ríkisborgara af þeim sem voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald minnkar á milli ára eða úr 75% í 70%. Er það sökum þess hve mikið Íslendingum fjölgaði.

Íslendingar lengur í gæsluvarðhaldi

Að meðaltali voru 54 í gæsluvarðhaldi á degi hverjum á síðasta ári, en árið á undan 51. Árið 2020 var fjöldinn 27 á hverjum degi.

Íslendingar eru að jafnaði lengur í gæsluvarðhaldi heldur en útlendingar þar sem útlendingum er meðal annars vísað úr landi. Ef aðeins er miðað við gæsluvarðhaldsdaga þá voru 55% af gæsluvarðhaldsföngum erlendir ríkisborgarar.

Ef miðað er við afplánunardaga og gæsluvarðhaldsdaga þá voru 42% fanga á Íslandi á síðasta ári erlendir ríkisborgarar.

Árið 2020 var það hlutfall 21%, árið 2021 var það 19%, árið 2022 var það 29% og árið 2023 var það 38%. Hefur hlutfall erlendra ríkisborgara aldrei verið hærra en á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert