Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni embættis ríkissaksóknara í Ólafsfjarðarmálinu svokallaða. Í málinu var Steinþór Einarsson sýknaður af ákæru um manndráp á Ólafsfirði í október 2022, en hann hafði áður verið dæmdur í átta ára fangelsi í héraðsdómi. Vísaði Landsréttur til þess að Steinþór hafi beitt sjálfsvörn þegar Tómas Waagfjörð lést.
Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að ríkissaksóknari hafi byggt á því í beiðni sinni að sjálfsvarnarákvæðinu hafi verið afar sjaldan beitt og að Hæstiréttur hafi aðeins einu sinni sýknað með vísan til ákvæðisins. Því hafi þótt afar mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar í málinu.
Þá telji ríkissaksóknari að beiting ákvæðisins snúi að mati á huglægu ástandi þess sem fari út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar og að um einstaklingsbundnar ástæður sé að ræða sem verði að sýna fram á með nægilegum líkum. Telji saksóknari að ekkert í framburði Steinþórs hafi borið með sér að ákvæðið ætti við um hann. Því telji embættið dóm Landsréttar bersýnilega rangan að efni til.
Hæstiréttur fellst á að telja verði að úrlausn málsins kunni að hafa verulega almenna þýðingu um beitingu sjálfsvarnarákvæðisins og er beiðnin því samþykkt.
Sem fyrr segir var Steinþór dæmdur í átta ára fangelsi í héraði fyrir manndráp með því að hafa orðið Tómasi að bana með því að stinga hann tvisvar í vinstri síðu með hníf. Fyrir Landsrétti krafðist ákæruvaldið þess að dómurinn yrði þyngdur, en Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Steinþór hafi orðið fyrir ólögmætri árás sem honum hafi verið rétt að verjast eða afstýra. Telur Landsréttur að Tómas hafi átt upptökin að átökum þeirra og að um ofsafengna og lífshættulega árás hafi verið að ræða af hálfu Tómasar.
Þá var einnig tekið tillit til skýrslu þess er framkvæmdi krufningu Tómasar, auk annarra gagna um stefnu og lögun stungusáranna og þótti á hinn bóginn hafið yfir skynsamlegan vafa að Steinþór hefði náð taki á hnífnum meðan á átökunum stóð og beint honum í síðu Tómasar í tvígang.
Segir í dómum að hann hefði með því beitt vörnum sem voru augsýnilega hættulegri en árásin og það tjón, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til og var því ekki fallist á að 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga gæti átt við um atvik málsins.
Þrátt fyrir það var lagt til grundvallar að árásin hefði enn staðið yfir þegar hnífurinn stakkst tvisvar í síðu Tómasar.