Flokkur fólksins er veiki hlekkurinn í ríkisstjórninni og stjórnarflokkarnir eiga eftir að útkljá „erfiðu málin“, eins og augljóst sé að misvísandi svörum forystumanna hennar. Viðmælendur Dagmála telja að það muni lita stjórnarsamstarfið á næstunni og þar sæki stjórnarandstaðan á ríkisstjórnina.
Bent er á að Inga Sæland hafi lent í vandræðum í Kryddsíldinni á Stöð 2, þar sem hún hafi ætlað að beita hefðbundum stjórnarandstöðutöktum í málflutningi, en staða hennar sé breytt.
„Hún er orðin ráðherra í ríkisstjórn, hún er forystumaður í landsmálunum, en ég er hræddur um að á bak við þessa frasa og þennan strigakjaft verði erfitt fyrir hana að tækla erfið mál þar sem hún þarf að svara alvöru spurningum,“ segir Björn Ingi Hrafnsson blaðamaður um framgöngu hennar.
Björn Ingi og Þórður Gunnarsson hagfræðingur eru viðmælendur Dagmála, en í þættinum er farið yfir ástand og horfur í stjórnmálum á nýju ári. Dagmál er streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opin eru öllum áskrifendum.
„Hún var oft og tíðum mjög ómálefnaleg,“ segir Þórður um málflutning Ingu í þættinum. „Það er spurning hvað hún kemst lengi upp með þetta sem forystumaður í ríkisstjórninni.“
Þeir félagar telja augljóst að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra nái vel saman, en Kristrún reiði sig ljóslega nokkuð á reynslu Þorgerðar. Það kunni hins vegar að valda vanda er fram í sækir hvað Viðreisn hafi borið mikið úr býtum í stjórnarmyndunarviðræðum.
„Mér er sagt innan úr þessum viðræðum að það hafi nánast verið vandræðalegt hvað gekk vel að semja við Flokk fólksins,“ segir Björn Ingi, en Samfylkingunni hafi legið mikið á að ljúka viðræðunum sem fyrst.
„En það vita það samt allir, að það eru bara hlutir sem á eftir að ræða, það á eftir að ræða erfiðu málin.“