Yfir þúsund tillögur borist frá almenningi

Það verður ærið verkefni fyrir starfshóp að fara yfir allar …
Það verður ærið verkefni fyrir starfshóp að fara yfir allar hagræðingartillögur almennings. mbl.is/Eyþór Árnason

Yfir þúsund tillögur hafa nú borist frá almenningi um hagræðingu í rekstri ríkisins, tæpum sólarhring eftir að opnað var fyrir innsendingar í samráðsgátt.

Tillögurnar eru misítarlegar og sömuleiðis misróttækar en margir kjósa þó að hafa tillögur sínar ekki sýnilegar almenningi.

Tillögurnar eru af ýmsum toga, en margir leggja til sameiningu stofnana og það að draga úr alþjóðasamstarfi, meðal annars með því að fækka sendiráðum og ganga úr Atlantshafsbandalaginu.

Þá hvetja einhverjir þingmenn til að líta í eigin barm, meðal annars með því að endurskoða þingfararkaup, afnema biðlaunarétt þingmanna, fækka starfsfólki ráðuneyta og aðstoðarmönnum ráðherra.

Opið er fyrir innsendingar til 23. janúar

Verkefnið ber heitið Verum hagsýn í rekstri ríkisins og getur almenningur sent inn tillögur í samráðsgátt til 23. janúar. Einnig verður kallað sérstaklega eftir upplýsingum og ábendingum frá ríkisstofnunum.

Í kjölfarið mun starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins rýna í allar ábendingar og niðurstöður vinnunnar verða nýttar við að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í rekstri ríkisins.

Miðað við fjölda ábendinga á ekki lengri tíma en þetta má gera ráð fyrir að fram undan sé ærið verkefni fyrir starfshópinn að fara yfir þær allar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert