Bjarni Þjóðleifsson, fv. yfirlæknir og prófessor, lést 30. desember á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, 85 ára að aldri.
Bjarni fæddist á Akranesi þann 29. janúar 1939 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðrún Bjarnadóttir, f. 1912, á Augastöðum í Hálsasveit, kaupakona og húsfreyja á Akranesi d. 2009, og Þjóðleifur Gunnlaugsson, f.1896 á Ytri Þorsteinsstöðum í Haukadal, rafstöðvarstjóri og kaupmaður á Akranesi, d. 1974. Bjarni var í sveit bæði að Melum í Melasveit og síðar á Litla Vatnshorni í Dölum.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1959, settist í læknadeild HÍ um haustið og útskrifaðist þaðan í febrúar 1966. Þá tók við kandídats- og síðar aðstoðarlæknis vinna á ýmsum deildum sjúkrahúsanna í Reykjavík, námsdvöl í Aberdeen og aðstoðarlæknis staða á Sauðárkróki.
Bjarni stundaði framhaldsnám í almennum lyflækningum og meltingarsjúkdómum í Dundee í Skotlandi frá október 1970. Hann lauk sérfræðiprófi í lyflækningum (Member of the Royal College of physicians, M.R.C. Phys.) í Glasgow í janúar 1973 og svo PhD. frá University of Dundee 5. desember 1975. Einnig starfaði hann á Royal Free í London í eitt ár til að öðlast meiri þekkingu á lifrarsjúkdómum.
Við heimkomu hóf Bjarni störf á Landspítalanum og varð yfirlæknir meltingasjúkdómadeildar 2002. Varð dósent við Háskóla Íslands í almennri lyflæknisfræði 1976 og frá 1983 var hann prófessor.
Bjarni var útnefndur félagi í Konunglega læknafélaginu í Edinborg 1994 (FRCP). Hann ritaði fjölda ritrýndra vísindagreina, hélt fyrirlestra um niðurstöður rannsókna sinna og var leiðbeinandi margra nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands, auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir háskólann og Landspítala, m.a. sem formaður Vísindaráðs Landspítala og formaður framhaldsmenntunarráðs Háskóla Íslands.
Þessu til viðbótar sinnti Bjarni mörgum trúnaðar- og ábyrgðarhlutverkum, svo sem fulltrúi læknadeildar í CINDI – heilsa fyrir alla árið 2000 á vegum WHO, formaður heilbrigðishóps í framkvæmdanefnd um framtíðarkönnun á vegum forsætisráðuneytisins, en afrakstur þeirrar vinnu birtist í bókinni Gróandi þjóðlíf. Einnig var hann ritstjóri Læknablaðsins og sat í orðanefnd um árabil.
Skvassi kynntist Bjarni á námsárum sínum í Bretlandi og var með þeim fyrstu sem stundaði íþróttina hér á landi. Hann spilaði golf og stundaði laxveiði. Í seinni tíð jókst svo áhugi á útivist og gönguferðum og var hann m.a. í sex manna gönguhóp sem gekk víða um land og fór í hjólaferðir til Frakklands. Á menntaskólaárunum varð hann góður skákmaður og alla tíð síðan tefldi hann þegar tækifæri gáfust.
Fyrri eiginkona Bjarna var Ingigerður Þórey Guðnadóttir handavinnukennari, f. 29.12. 1940, d. 17.12. 1982. Foreldrar hennar voru hjónin Þóranna Lilja Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 1904, d. 1970, og Guðni Guðmundsson verkamaður, f. 1904, d. 1947.
Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Sigríður Sigtryggsdóttir bókasafnsfræðingur, f. 24.10. 1953. Foreldrar hennar voru hjónin Unnur Pálsdóttir húsfreyja, f. 1913, d. 2011, og Sigtryggur Klemenzson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og síðast seðlabankastjóri, f. 1911, d. 1971.
Börn Bjarna og Ingigerðar eru 1) Guðrún, f. 29.10. 1969, náttúrufræðingur og eigandi Hespuhússins í Árbæjarhverfi við Selfoss; 2) Gerður, f. 29.10. 1969, kjóla- og klæðskerameistari og kennari við Tækniskólann. Maki: Kristján Ari Arason. Dóttir þeirra er Ingigerður Úlla, f. 31.1. 2018; 3) Hildur, f. 29.10. 1969, myndlistarmaður og prófessor við Listaháskóla Íslands. Maki: Ólafur Sveinn Gíslason. Dætur þeirra eru tvíburarnir Salka Sigrún og Urður Inga, f. 26.7. 2019; 4) Brjánn Guðni, f. 8.1. 1980, fjármálaverkfræðingur. Maki: Sandra Karlsdóttir. Börn hans eru Brynhildur Þórey, f. 20.4. 2007, og Hrafnkell Gauti, f. 13.7. 2009. Móðir þeirra er Karen Amelía Jónsdóttir.