Framkvæmdin sem á að breyta Reykjavík

Miklubrautargöng eru ein stærsta uppbyggingarframkvæmd næstu áratuga. En hvernig er …
Miklubrautargöng eru ein stærsta uppbyggingarframkvæmd næstu áratuga. En hvernig er gert ráð fyrir að göngin muni líta út? Samsett mynd

Eitt af stærstu uppbyggingarverkefnum á Íslandi á komandi áratug verða líklega Miklubrautargöng, en verðmiði þeirra er vel á sjötta tug milljarða. En hvernig munu þessi göng líta út og hver er tímarammi framkvæmdanna?

Undanfarin ár hefur umtalsverð umræða átt sér stað um framtíð samgöngukerfisins á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst tengt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, en í honum felast umtalsverðar framkvæmdir við stofnvegi, uppbygging borgarlínu og göngu- og hjólastígaframkvæmdir fram til ársins 2040.

Göng eða stokkur?

Í ágúst var líklega eitt stærsta skrefið stigið í þessum málum þegar samgöngusáttmálinn var uppfærður, en við það var áætlun um heildarkostnað hans hækkaður upp í 311 milljarða. Við sama tækifæri voru tekin af tvímæli um nokkrar af stærstu framkvæmdir sáttmálans sem munu snerta tug þúsundir íbúa höfuðborgarsvæðisins á hverjum einasta degi. Þar á meðal um framtíð Miklubrautarinnar og hvort að hluti hennar muni fara í stokk eða göng.

Upphaflega hafði verið horft til þess að hluti Miklubrautar frá Snorrabraut og að Kringlunni færi í stokk, en með því væri meðal annars hægt að byggja ofan á stokknum í stað þess að hafa jafn umfangsmikla og umferðamikla stofnæð þar í gegn sem sker íbúðahverfi niður. Heildarvegalengd stokksins átti að vera um 1,8 km.

Hins vegar var ljóst að slík framkvæmd væri bæði mjög kostnaðarsöm og að framkvæmdir myndu valda gríðarlegum truflunum fyrir umferð og íbúa yfir margra ára tímabil. Varð umræða um göng því alltaf háværari og í uppfærðum samgöngusáttmála kom fram að ákveðið hefði verið að velja gangaleiðina frekar en stokkinn.

Hafði Vegagerðin áður skilað inn greiningu sinni um kostina og komist að þeirri niðurstöðu að jarðgangagerð væri talin mikið vænlegri kostur en að setja brautina í stokk.

Samtals 4,1 km göng

Göngin eru þó ekki bara öðruvísi í framkvæmd en stokkur, heldur er þar gert ráð fyrir að þau nái frá Snorrabraut og mun lengra í austur, eða alla leið austur fyrir Grensásveg og langleiðina að Skeiðarvogi. Þá er einnig gert ráð fyrir að þau nái eftir Kringlumýrarbraut suður fyrir Bústaðaveg.

Væri heildarlengd ganganna eftir Miklubraut 2,8 km með tvær akreinar í báðar akstursstefnur, en til viðbótar kæmi 1,3 km kafli frá Miklubraut og suður með eina akrein í hvora akstursstefnu. Samtals væri það því 4,1 km löng göng.

Yfirlitsmynd sem sýnir þá lausn sem verður tekin áfram á …
Yfirlitsmynd sem sýnir þá lausn sem verður tekin áfram á næsta hönnunarstig, forhönnun. Kort/Vegagerðin

Sjá má áætlaða legu jarðganganna á meðfylgjandi teikningu. Þar sést hvernig vesturendinn er við núverandi gatnamót Snorrabrautar og Miklubrautar/Hringbrautar. Áður hefur komið fram að á þessum stað, þar sem verið er að reisa nýja Landspítalann, sé vegstæðið þröngt. Með göngum verður helsta raskið við enda ganganna, en ef farin væri stokkaleiðin verður raskið og þar með áætlaðar umferðatafir, mun meiri alla leiðina.

Hvernig munu göngin líta út?

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig gangamuninn á vesturenda jarðganganna gæti litið út, en myndin var birt í frumdragaskýrslu Vegagerðarinnar um Miklubraut í göng eða stokk. Þar er einnig gert ráð fyrir byggð ofan á vegskálanum. Rétt er að taka fram að byggingarnar sem sjást á yfirborði eru ekki endanleg hönnun heldur aðeins tillögur á frumstigi.

Vestari gangamunninn sunnan við nýja Landspítalann. Byggingar sjást á yfirborði, …
Vestari gangamunninn sunnan við nýja Landspítalann. Byggingar sjást á yfirborði, en ekki er um að ræða neina endanlega hönnun hvað það varðar, aðeins tillögu á frumstigi. Teikning/Efla

Á annarri mynd sem fylgdi skýrslunni má sjá hvernig umferð við Skeifuna gæti litið út. Þar má sjá tvær akreinar í báðar áttir liggja ofan í göngin, en á yfirborðinu er ein akrein í hvora átt fyrir borgarlínu og ein akrein, með að- og afreinum, fyrir almenna umferð. Má segja að það jafngildi núverandi fjölda akreina fyrir bílaumferð, en við bætast borgarlínuakreinar.

Á Miklubraut sunnan við Skeifuna eiga gangnamunar að austan að …
Á Miklubraut sunnan við Skeifuna eiga gangnamunar að austan að vera. Tvær akreinar í hvora akstursstefnu eiga að vera um göngin, en þau eiga að liggja um 2,8 km leið að Snorrabraut. Teikning/Efla

Á þriðju myndinni má svo sjá hvernig útlit á suðurenda ganganna gæti litið út á Kringlumýrarbraut. Samkvæmt frumdrögunum er gert ráð fyrir að umferð komi upp úr göngunum rétt sunnan við Bústaðaveg, en að farið sé ofan í göngin rétt norðan. Með því yrðu gangamunnarnir báðir í miðjunni, en ekki á ytri kantinum, líkt og í tilfelli austurendans við Skeifuna.

Gangnamuninn á Kringlumýrarbraut, við Bústaðaveg, gæti litið út svona.
Gangnamuninn á Kringlumýrarbraut, við Bústaðaveg, gæti litið út svona. Ljósmynd/Teikning/Efla

54 milljarðar og stefnt að framkvæmdum 2033

Samkvæmt uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins má sjá að gert er ráð fyrir einum milljarði í Miklubrautargöng árið 2032, en ætla má að það sé í undirbúningskostnað. Samkvæmt planinu er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist ári síðar, eða 2033, en þá er gert ráð fyrir rúmlega 6 milljörðum í verkefnið og sjö milljörðum árið eftir.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdin geti klárast á um fimm árum, en til viðbótar við þá 14 milljarða sem áætlaðir eru fyrstu árin er gert ráð fyrir 40 milljörðum í verkefnið til viðbótar 2035 til 2038.

Frumdrög – forhönnun - verkhönnun

Líkt og kom fram á síðasta ári er Vegagerðin búin með frumdragahönnun verkefnisins, en það er fyrsta hönnunarstig af þremur. Í því felst meðal annars valkostagreining þar sem valkostir eru skoðaðir og svo í kjölfarið mismunandi útfærslur á slíkum lausnum. Í þessu tilfelli voru kostir og gallar við stokk og göng skoðaðir og svo fyrir mismunandi útfærslur á hvorri lausn. Var niðurstaðan eftir þá hönnun að leggja til göngin sem sveitarfélögin hafa tekið upp miðað við uppfærðan samgöngusáttmála.

Næsta stig er forhönnunarstig, en þá er sú lausn sem ákveðið var að velja hönnuð áfram og settar fram nákvæmari áætlanir og kostnaður. Á þessu stigi er einnig unnið að því að samræma framkvæmdina við aðrar áætlanir borgarinnar og skipulag, en í þessu verkefni felst það meðal annars í samræmingu við borgarlínuverkefnið. Jarðgöng kalla einnig á breytingu á aðalskipulagi, en í núverandi skipulagi er gert ráð fyrir stokki.

Kristján Árni Kristjánsson, verkefnastjóri stofnvega á höfuðborgarsvæðinu hjá Vegagerðinni, segir að forhönnunarstig geti tekið um 1-2 ár, en eftir það tekur við verkhönnunarstig þar sem framkvæmdin er að fullu hönnuð og undirbúin. Frekari upplýsingar um hönnun, útlit og uppfært kostnaðarmat gætu því legið frammi eftir þann tíma.

Göngin á 30 metra dýpi

Í samtali við mbl.is segir hann að göngin gætu legið á allt að um 30 metra dýpi þar sem dýpst verður og að jarðfræðilega sé staðsetningin góð. Þannig sé bergið sem grafið yrði í gegnum einsleitt og henti vel til jarðgangagerðar. Þar er um að ræða Reykjavíkurgrágrýti.

Á myndunum hér að neðan má sjá bæði langsnið af berggrunni Miklubrautar, en vestan megin væri farið inn nálægt Snorrabraut, í um 15 metra hæð yfir sjávarmáli og svo út austan við Grensásveg í um 30 metra hæð. Myndu göngin því geta fylgt sama berglagi næstum alla leið.

Á seinni langsniðsmyndunum má sjá betur á hvaða dýpi göngin yrðu á mismunandi stöðum.

Kristján tekur einnig fram að rask af völdum jarðganga verði alltaf mun minna en rask af stokkaframkvæmdum og að það þýði að tímalínan geti verið sveigjanlegri og að áhrif á umferð ættu að vera minni en ef stokkur væri valinn.

Langsnið af Berggrunni Miklubrautar. Göngin yrðu að mestu í Reykjavíkurgrágrýtislaginu …
Langsnið af Berggrunni Miklubrautar. Göngin yrðu að mestu í Reykjavíkurgrágrýtislaginu og á allt að 30 metra dýpi. Graf/Vegagerðin
Hér má sjá nánari legu vestari hluta ganganna og í …
Hér má sjá nánari legu vestari hluta ganganna og í hvaða berglagi þau myndu liggja. Teikning/Efla
Hér er svo langsniðið af austari hluta ganganna og sést …
Hér er svo langsniðið af austari hluta ganganna og sést þar nánar í gegnum hvaða setlög göngin myndu liggja. Teikning/Efla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert