Litlar breytingar hafa orðið á stöðunni við Hvítá, þar sem vatn hefur flætt upp úr árfarveginum frá því 2. janúar, eftir að ísstífla fór að byggjast upp í ánni nærri Brúnastöðum og Flóaveituskurðinum þann 30. desember síðastliðinn.
Vatnshæðin virðist þó hægt og rólega vera örlítið að lækka, samkvæmt mælum Veðurstofunnar, og hefur gert það síðan að kvöldi 3. janúar, að sögn náttúruvársérfræðings.
Myndir sem Veðurstofunni bárust frá lögreglunni rétt í þessu sýna svipaða stöðu og um hádegi í gær.
„Það virðist vera örlítið minna vatn að flæða yfir bakkana og minna vatn að flæða ofan í Flóaveituskurðinn. Ég býst við að þetta verði svona áfram út af frostinu sem verður viðvarandi í dag og á morgun,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Mikill ís hefur hlaðist upp í ánni á löngum kafla og töluverð óvissa ríkir með hvað gerist þegar fer að hlýna, eins og spár gera ráð fyrir undir lok vikunnar.
„Það er erfitt að segja, það hefur mikill ís hlaðist upp og þetta er löng lengja af ís langt uppeftir ánni. Það eru svo margar sviðsmyndir sem geta orðið. Það fer auðvitað allt eftir veðri,“ segir Steinunn.
Það þurfi eiginlega bara að bíða og sjá.
„Besti kosturinn væri að hún myndi losa sig náttúrulega, að vatn gæti þá flætt undir stífluna. Það gerist alveg oft, en það er ekki hægt að spá fyrir um það.“
Steinunn segir þó mjög jákvætt að vatnshæðin fari lækkandi, þó það gerist hægt. „Lækkunin þýðir að það nær vatn að flæða undir stífluna.“