Ríkisstjórnin hefur opnað sannkallað Pandórubox með samráði um aukna ráðdeild í ríkisrekstri. Á tæpum þremur sólarhringum hafa nærri 2000 umsagnir verið sendar inn. Í innsendum tillögum má meðal annars finna ásakanir á hendur opinberum starfsmönnum um fjárdrátt.
Þetta er meðal þess sem tekið er fyrir í nýjasta þætti Spursmála. Þar er bent á innsenda tillögu frá manni að nafni Anton Daði Fjölnisson. Segir hann farir sínar ekki sléttar eftir að hafa starfað á vitasviði Vegagerðarinnar árið 2021. Fullyrðir hann að yfirmaður sinn, sem hann ekki nafngreinir, hafi misfarið með opinbert fé, bæði í formi notkunar á bifreið í opinberri eigu, en einnig með því að hafa ofskráð yfirvinnutíma og dagpeninga.
Í athugasemdinni segir hann meðal annars:
„Ég starfaði hjá Vegagerðinni árið 2021 í vitadeild yfir sumarið. Ég hef aldrei séð eins mikla spillingu í lífinu mínu. Hvernig farið er með almannafé er skelfilegt. Endalaust verið að kaupa hluti sem var óþarfi eða jafnvel notaður einu sinni. Yfirmaður minn notaði ríkis bifreið til einka notkuns, og ofskrifaði dagpeninga til sín ásamt yfirvinnu tímum.“
Í Spursmálum er einnig rætt við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra. Þar lýsir hann skoðun sinni á uppátæki ríkisstjórnarinnar og til hvers hann telji það leiða.
Spursmál hafa sent fyrirspurn á Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar og vænta má að svar frá henni verði gert heyrinkunnugt í síðasta lagi næsta föstudag, þegar Spursmál fara að nýju í loftið á slaginu 14:00.
Viðtalið við Sigmund Davíð má sjá í heild sinni hér að neðan. Í þáttinn mættu einnig Marta María Winkel Jónasdóttir og Jakob Birgisson.