Bjarni hættir á þingi og fer ekki í formannskjör

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér í formannskjöri á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt ætlar hann að segja af sér þingmennsku.

Bjarni tilkynnti um þetta í færslu á Facebook nú fyrir skömmu. 

Í færslunni rifjar Bjarni upp að hann hafi setið á þingi frá árinu 2003, eða frá því að hann var 33 ára. Nú í janúar verði hann 55 ára og að þingsetan hafi verið lengri en hann bjóst við. 

Á þessum tímamótum hef ég hins vegar ákveðið að sækjast ekki eftir endurnýjuðu umboði til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nýafstaðnar kosningar skiluðu Sjálfstæðisflokknum næst flestum þingmönnum á Alþingi, þar sem hann var rúmu prósentustigi minni en sá stærsti,“ segir Bjarni í færslunni.

Segist Bjarni hafa rætt við sína nánust undanfarna daga um framtíðina. „Ég finn að þetta er rétti tíminn til að breyta til. Það er ekkert launungarmál að ég mun njóta þess að hafa meiri tíma í framtíðinni með fjölskyldunni, sem hefur farið stækkandi, og til að sinna öðrum hugðarefnum. Í ljósi þessara aðstæðna hef ég ákveðið að taka ekki sæti á því þingi sem hefst síðar í mánuðinum. Næstu vikur ætla ég að taka mér frí en hyggst svo taka mín síðustu skref á pólitíska sviðinu og kveðja vini mína í Sjálfstæðisflokknum á landsfundinum sem framundan er, þar sem blásið verður til sóknar fyrir þjóðlífið allt,“ segir Bjarni í færslunni.

Jón Gunnarsson fyrsti varaþingmaður

Jón Gunnarsson var fimmti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í nóvember og er hann þar af leiðandi fyrsti varaþingmaður sjálfstæðismanna.

Bjarni tók við sem formaður Sjálfstæðisflokksins árið 2009 og hefur setið á Alþingi frá árinu 2003. Hann hefur gegnt embættum á borð við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra. Hann hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í gegnum sex kosningar og var í ríkisstjórn frá árinu 2013 til ársins 2024. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert