Fleiri tilkynningar um ofbeldi barna í garð foreldra

Meiriháttar og stórfelld ofbeldisbrot jukust um 19% á árinu og …
Meiriháttar og stórfelld ofbeldisbrot jukust um 19% á árinu og voru rétt um 300 talsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á árinu sem leið fjölgaði tilkynningum um ofbeldi af hálfu barns í garð foreldris um 18% og tilkynningum um ofbeldi foreldris í garð barns um 12%.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaskýrslu ríkislögreglustjóra um störf lögreglu árið 2024.

Heimilisofbeldismál á árinu voru um 1.120 sem er sami fjöldi og að meðaltali árin 2021-2023. Voru flest ofbeldisbrotin af hendi maka og var svipaður fjöldi mála skráður árið 2024 og að meðaltali á árunum 2021-2023.

Næstflest ofbeldisbrot eru af hendi fyrrverandi maka en slíkum málum fækkaði engu að síður um 18% á árinu.

Aldrei fleiri manndrápsmál

Heildarfjöldi ofbeldisbrota á árinu sem leið fækkaði um 3% að meðaltali en í skýrslunni er á það minnst að ofbeldisbrot hafi verið óvenju mörg á árunum 2021-2024 eða að meðaltali 2.000. 

Meiriháttar og stórfelld ofbeldisbrot jukust aftur á móti um 19% á árinu og voru rétt um 300 talsins. 

Árið 2024 voru mál þar sem grunur var um manndráp sjö, en alls létust átta einstaklingar í þessum málum. Sé miðað við fjölda látinna á íbúa þá hafa ekki verið skráð fleiri manndráp hér á landi ef litið er aftur til aldamóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert