Hefði komið meira á óvart hefði hann tekið slaginn

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksin.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksin. mbl.is/Árni Sæberg

Það hefði komið „rækilega á óvart“ ef Bjarni Benediktsson hefði tekið slaginn og gefið aftur kost á sér í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins. 

„Það blasti alveg við að hans tíma á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins væri að ljúka.“

Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, spurður út í yfirlýsingu Bjarna þess efnis að hann gæfi ekki kost á sér í formann flokksins á komandi landsfundi og ætli að segja af sér þingmennsku.

Að sögn Eiríks var þetta ekki spurning um hvort Bjarni myndi tilkynna þetta heldur hvernig.

Betra að hætta á þingi en verða aftursætisbílstjóri

Eiríkur segir það heldur ekki hafa komið á óvart að hann skyldi ekki ætla að taka sæti á þingi. 

Bjarni hefði getað setið áfram á þingi, fullt af fordæmum séu um það. Aftur á móti geti fyrrverandi formenn reynst erfiðir aftursætisbílstjórar, þó það sé ekkert algilt.

Það séu mun hreinlegri skil fyrir flokkinn að Bjarni hætti líka á þingi „og farsælla fyrir hann sjálfan og hans arfleifð“.

Eiríkur Bergmann.
Eiríkur Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn augljós arftaki

En hver verður þá næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Í fljótu bragði segir Eiríkur fjóra Sjálfstæðismenn koma til greina þó enginn þeirra sé augljós arftaki.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður flokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem bauð sig fram gegn Bjarna á síðasta landsfundi, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir.

„Auðvitað segja hefðir og almennar reglur að varaformaður sé sá sem taki við en nú er það þannig að varaformaðurinn er ekki algjörlega augljós kostur.“

Þurfa að ákveða í hvorn fótinn þeir vilja stíga

Hvað varðar framtíð Sjálfstæðisflokksins segir Eiríkur Sjálfstæðismenn vera í erfiðum jafnvægisleik. Í síðustu kosningum hafi flokkurinn annars vegar misst íhaldssamt fylgi til Miðflokksins og hins vegar misst frjálslynt fylgi til Viðreisnar. 

Hann segir Sjálfstæðismenn þurfa að gera það upp við sjálfa sig í hvorn fótinn þeir vilji stíga, þann íhaldssama eða frjálslynda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert