„Ég hef alla tíð verið yfirlýstur andstæðingur inngöngu í ESB en ég virði það að þjóðin fái að segja sitt álit í þeim efnum,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Flokks fólksins, í samtali við Morgunblaðið, spurð um afstöðu sína til Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar í ljósi fyrri orðræðu hennar um að það væri engin sérstök björg fyrir Ísland.
Í nýlegri kosningabaráttu talaði Flokkur fólksins gegn aðild að Evrópusambandinu en Lilja Rafney, sem áður sat á þingi fyrir Vinstri græn, hefur einnig verið mótfallin aðild. Núverandi ríkisstjórn stefnir hins vegar að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræður ekki síðar en árið 2027.
Árið 2009 flutti Lilja ræðu á Alþingi þar sem hún sagðist efast um að Evrópusambandið væri aðildarþjóðum sínum skjól í heimskreppu þess tíma. Þá sagði hún umsókn um aðild að Evrópusambandinu „ekkert annað en villuljós í myrkri“, ríkisstjórnin ætti heldur að einbeita sér að endurreisn íslensks efnahags eftir hrunið.
Spurð hvort hún telji forsendur fyrir aðild Íslands að ESB hafa breyst frá árinu 2009 svarar hún neitandi: „Sú trú mín hefur styrkst í gegnum árin að okkur sé betur borgið utan ESB en innan ESB.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag