Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, hefur að eigin ósk látið af embætti ráðuneytisstjóra. Gissur mun starfa áfram sem sérfræðingur í ráðuneytinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en þar segir einnig að félags- og húsnæðismálaráðherra, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Ásdís Halla Bragadóttir hafa gert með sér samkomulag um flutning Ásdísar Höllu í embætti ráðuneytisstjóra félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins en heiti þess verður breytt í félags- og húsnæðismálaráðuneyti 1. mars nk.
Ásdís Halla var skipuð í embætti ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins 2022.
Þá hefur náðst samkomulag milli menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, atvinnuvegaráðherra og Sigrúnar Brynju Einarsdóttur um flutning Sigrúnar Brynju í embætti ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins en heiti ráðuneytisins verður breytt í menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti 1. mars nk.
Sigrún Brynja var skipuð í embætti ráðuneytisstjóra menningar- og viðskiptaráðuneytisins 2023.