Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tilkynnt að hann muni taka til efnismeðferðar mál Gráa hersins og þriggja ellilífeyrisþega gegn íslenska ríkinu í skerðingamáli sem Grái herinn taldi brjóta á stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka.
Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í nóvember árið 2022, en hann féll ríkinu í vil. Í kjölfarið tilkynntu forsvarsmenn Gráa hersins að þau ætluðu með málið fyrir MDE og hefur dómstóllinn nú samþykkt að taka það fyrir.
Málshöfðunin var reist á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyristakar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi sínu og iðgjöldum, sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka. Taldi Grái herinn að skerðingin nemi allt að 56,9% af greiðslum úr lífeyrissjóði.
Taldi Hæstiréttur í máli eins þeirra að skerðingarnar hafi hvílt á málefnalegum sjónarmiðum, séu almennar og geri ekki slíkan greinarmun á einstaklingum að þær feli í sér ólögmæta mismunun, andstætt fyrirmælum 62. gr. stjórnarskrárinnar.
Þá taldi Hæstiréttur að Grái herinn hafi ekki sýnt fram á að með fyrirmælum laga um lífeyrisréttindi hans sem njóta verndar eignaréttarákvæðisins hafi verið skert eða takmörkuð auk þess sem lög frá 2016 um almannatryggingar og lög frá 2017 um almannatryggingar hafi í engu tilliti breytt greiðslum einstaklinganna úr lífeyrissjóðum samkvæmt réttindum sem hann hefði áunnið sér á grundvelli iðgjalda.
Í tilkynningu frá Gráa hernum kemur fram að MDE muni afmarka umfjöllun sína við nánar tilgreind álitaefni, þ.e. hvort skerðingarreglurnar frá 2017/'18 hafi mismunað ellilífeyristökum eftir því hvort lífeyrisréttindi þeirra voru í séreignar- eða sameignarsjóðum; og/eða með því að ákvarða frítekjumark þeirra sem enn höfðu atvinnutekjur miklu hærra en þeirra sem eingöngu fengu greitt úr lífeyrissjóðum.
Þá segir einnig að dómstóllinn hafi veitt ríkinu til 11. mars til að leita sátta í málinu. Náist ekki sátt fyrir þann tíma fær ríkið 12 vikna frest til að skila inn greinargerð um málið. Í framhaldinu fær svo Grái herinn frest til að skila greinargerð af sinni hálfu.
Segir Grái herinn það vera áfangasigur að fá málið fyrir MDE, en minni hluti mála sem þangað berast fá efnismeðferð.