Mikil ásókn hefur verið í þjónustu heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. Gríðarlegt álag er á stöðvunum, bæði vegna alls konar pesta sem ganga nú yfir og frídaga yfir hátíðarnar.
Þetta segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Spurð hver biðtíminn sé að meðaltali eftir tíma hjá heimilislækni segir hún hann mjög mismunandi eftir erindum sjúklinga og hvern þeir vilji hitta.
Hún tekur fram að öllum bráðum erindum sé sinnt samdægurs og bendir fólki með slík erindi að hafa samband í síma 1700.
Sigríður Dóra vekur einnig athygli á upplýsingum á síðunni Heilsuveru. Oft hafi sjúklingar spurningar sem hægt sé að finna svör við þar.
Þá sé langoftast lítið hægt að gera fyrir sjúklinga með pestir nema veikindin séu orðin langvarandi og fólk þurfi t.d. á lyfseðilsskyldum sýklalyfjum að halda.
Hún hvetur sjúklinga til að hvíla sig, vökva sig og taka hitalækkandi lyf.