Hugsanlegt er að vindur gæti sett strik í reikninginn í sambandi við þrettándabrennur sem hafa verið auglýstar víða um land í dag og í kvöld.
Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að draga eigi úr vindi víða á landinu í kvöld. Hún segir að í dag verði 10-15 m/s en í kvöld verður vindur hægari nema á austanverðu landinu, á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þar verður nokkuð hvasst og eins gæti orðið strekkingsvindur af norðri á vestanverðu höfuðborgarsvæðinu.
Meðal þeirra staða sem hafa auglýst þrettándabrennur er Akranes, Borgarnes, Fjallabyggð, Dalvík, Egilsstaðir, Reykjanesbær, Hafnarfjörður og Mosfellsbær.
Katrín segir að útlit sé fyrir bjartviðri á sunnan- og vestanverðu landinu en spáð er éljagangi fyrir norðan og austan. Hún segir að frost á höfuðborgarsvæðinu geti náð allt að tíu stigum í kvöld og því sé um að gera að klæða sig vel ef fólk ætli að fara að sjá þrettándabrennurnar því vindkælingin geti orðið talsverð.