Framkvæmdir eru aðeins hafnar við 42% þeirra íbúða á höfuðborgarsvæðinu sem áætlað var að yrði úthlutað árið 2023 og 65% þeirra íbúða sem áætlað var að yrði úthlutað árið 2022.
Um 28% þeirra lóða sem átti að úthluta árið 2023 eru ekki byggingarhæfar, 14% lóða eru í biðstöðu og 16% hafa aðeins verið skilgreindar sem byggingarhæfar lóðir.
Þetta segir Jón Örn Gunnarsson, sérfræðingur á húsnæðissviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Hann hélt erindið Staða íbúðauppbyggingar og framtíðarhorfur á opnum fundi um stöðu íbúðauppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta er eitthvað sem við þurfum að rýna í,“ segir Jón Örn.
Á síðustu tíu árum hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 40 þúsund. Á næstu tíu árum er gert ráð fyrir að þeim muni fjölga enn meira, eða um 52 þúsund.
Hlutfall íbúa í hverri íbúð á höfuðborgarsvæðinu er 2,5 á móti 1. Flest sveitarfélög áætla að hlutfallið fari lækkandi með árunum samhliða því sem fjölskyldur minnka með komandi kynslóðum. Kópavogur og Seltjarnarnes áætla að hlutfallið haldist óbreytt næsta áratuginn.
Samkvæmt spá um mannfjölda og hlutfall íbúa í hverri íbúð er þörf fyrir 2.900 íbúðir á ári á næstu tíu árum á höfuðborgarsvæðinu, sem gera í heildina 15.500 íbúðir á næstu fimm árum og 29 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu áætluðu að 4.177 íbúðir færu í úthlutun á síðasta ári og svipaður fjöldi næstu fimm árin.
„Það er svo sem ekki nóg að segjast ætla að úthluta þessum lóðum, það þarf að fylgja því eftir,“ segir Jón Örn.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur undanfarin fjögur ár talið þær íbúðir sem eru í byggingu.
Athygli vekur að þeim fækkaði frá árinu 2023 til 2024 en í september 2023 voru 6.012 íbúðir í byggingu en síðasta september voru þær 5.003, sem er 17% samdráttur.