Fylgist spennt með því hver tekur við af Bjarna

Kristrún Frosta­dóttir í morgun er hún mætti á ríkisstjórnarfund.
Kristrún Frosta­dóttir í morgun er hún mætti á ríkisstjórnarfund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er spennt fyrir komandi formannsslag í Sjálfstæðisflokknum. Hún segir að það hafi verið lærdómsríkt að vera með Bjarna Benediktssyni í stjórnmálum.

Þetta kemur fram í samtali Kristrúnar við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

„Ég hef haft mjög gaman af honum Bjarna og haft gaman að því að takast á við hann í pólitíkinni. Hann hefur verið með mjög skýra sýn fyrir sinn flokk og auðvitað mikla reynslu,“ segir Kristrún.

Bjarni til­kynnti í gær að hann hygðist ekki gefa kost á sér til for­mennsku flokks­ins og hygðist sömu­leiðis segja af sér þing­mennsku.

Lærdómsríkt að vera í stjórnmálum með Bjarna

Hún segir að það hafi verið „mjög lærdómsríkt“ að vera með honum í stjórnmálum, sérstaklega þegar kemur að pólitískum skoðanaskiptum.

„Það verður eftir því tekið að hann er farinn, ekki spurning. En ég líka hlakka til að sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Kristrún.

Bjarni tók við sem formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins árið 2009 og hef­ur setið á Alþingi frá ár­inu 2003. Hann hef­ur gegnt embætt­um á borð við for­sæt­is­ráðherra, fjár­málaráðherra og ut­an­rík­is­ráðherra.

Ég fylgist spennt með“

Til stendur að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok febrúar og bendir flest til þess að hart verði barist um formannsstólinn. 

Hver heldurðu að verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

„Það hef ég ekki hugmynd um. En ég fylgist spennt með eins og aðrir,“ segir Kristrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert