Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að mál víninnflytjandans Distu og ÁTVR sé til skoðunar hjá ráðuneytinu.
Dista bíður enn eftir því að ÁTVR bregðist við dómi Hæstaréttar sem skar úr um það í byrjun desember að ÁTVR hefði brotið lög þegar hún tók tvær bjórtegundir frá Distu úr sölu.
Bjórinn er enn ekki kominn aftur í hillur Vínbúðanna og lögmaður Distu segir að ÁTVR hafi ekki sýnt frumkvæði að því að rétta hlut Distu í kjölfar dómsins.
Finnst þér eðlilegt að ÁTVR sé ekki búið að bregðast við dómi hæstaréttar?
„Við erum með þetta mál til meðferðar í ráðuneytinu, það er í vinnslu. Ég tjái mig ekki um einstök mál sem koma inn í ráðuneytið – einstök úrskurðarmál varðandi einstaka aðila fyrr en niðurstaðan liggur fyrir,“ segir Daði í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun.
Hæstiréttur felldi úr gildi þann 4. desember ákvarðanir ÁTVR um að taka bjórinn úr sölu á grundvelli viðmiða um framlegð.
Í dómnum kom fram að eftirspurn væri eina viðmiðið sem lög tilgreindu við vöruval. Reglugerð fjármálaráðuneytisins um framlegðarviðmið ættu enga stoð í lögum.
Spurður hvort hann telji ríkið þurfa bæta tjón Distu ítrekar Daði að hann muni ekki tjá sig um málið fyrr en ráðuneytið hefur farið yfir málið.
„Við reynum að vinna þetta eins og hratt og mögulegt er,“ segir Daði.