Mönnunarvandinn „kristallaðist“ í Rangárþingi

Alma D. Möller ræddi við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í …
Alma D. Möller ræddi við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alma Möller heilbrigðisráðherra segir að það sé óásættanlegt að upp hafi komið sú staða að í nokkra daga hafi enginn læknir verið í Rangárþingi. Hún vill skoða ívilnanir á borð við endurgreiðslu námslána fyrir lækna sem velja að starfa í ákveðnu héraði.

Hún segir allt kapp lagt á það að manna til lengri og skemmri tíma en bendir á það að forstjóri HSU beri ábyrgð á mönnun.

Alma segir það vera vitað mál að það skortir lækna á landsbyggðinni.

„Og það kristallaðist í Rangárþingi um jólin að þá var búið að manna vaktina en það komu upp aðstæður sem gerðu að þarna voru nokkrir dagar þar sem enginn læknir var. Það er auðvitað óásættanlegt og á ekki að gerast,“ segir Alma í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi. 

Ekki tekist að fá fastráðna lækna

Síðustu mánuði hef­ur staðan verið þannig að nán­ast ein­göngu verk­taka­lækn­ar hafa sinnt sjúk­ling­um á svæðinu, þar sem ekki hef­ur tek­ist að fa­stráða lækna á heilsu­gæslu­stöðina í Rangárþingi.

Það hafa komið dag­ar þar sem bráðavakt lækna í Rangárþingi á Suður­landi hef­ur fallið niður, þar sem ekki hef­ur tek­ist að manna vakt­irn­ar. Ekki hef­ur þá verið lækn­ir til staðar til að sinna bráðatil­fell­um. Tölu­vert hef­ur verið fjallað um skort á lækn­um í Rangárþingi og stöðu heil­brigðismála á Suður­landi í frétt­um síðustu daga.

Þá fjallaði mbl.is um mál manns sem lést á dval­ar­heim­il­inu Kirkju­hvoli á Hvols­velli á aðfanga­dags­kvöld, en ekki var hægt að úr­sk­urða hann lát­inn þar sem aðeins var lækn­ir á vakt til að sinna líf­sógn­andi til­fell­um. Þótti and­lát á hjúkr­un­ar­heim­ili ekki falla und­ir þá skil­grein­ingu.

Vill skoða ívilnanir

Alma segir að það sé ákvæði í lögum um menntasjóð námsmanna um ívilnun varðandi endurgreiðslu námslána ef það skortir sérfræðiþjónustu í ákveðnu héraði. Það sé eitthvað sem heilbrigðisráðuneytið ætli að skoða.

Hvaða tímaramma erum við að tala um?

„Ég þori ekki að segja það. Þetta er til en við þurfum að skoða hvernig er hægt að útfæra þetta þannig að það muni um það. Síðan er sveitarstjórnin að vinna með forstjóra í til dæmis að leggja til húsnæði. Þannig það er alveg ljóst að við munum öll hjálpast við að leysa þetta mál,“ segir Alma.

Fjölga þarf menntuðum heimilislæknum

Hún segir eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar vera að bæta heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og það sé langtímaverkefni.

Nefnir hún sem dæmi að það þurfi að fjölga menntuðum heimilislæknum og að slíkt verkefni sé þegar hafið. Hún hyggst skoða nánar hver staðan er á því.

Þá vill hún koma á fót sérnámi fyrir héraðslækningar.

„Það er búið að tala um það lengi þannig ég mun skoða hvar það mál er statt. Það er allavega ekki byrjaðar,“ segir Alma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert