Nýjar reglur Evrópusambandsins um drónaflug hafa nú tekið gildi á Íslandi, en þær hafa verið í gildi innan Evrópu frá árinu 2020. „Þessar breytingar urðu hjá okkur rétt fyrir jól, en flestir drónaflugmenn hafa vitað af því að þær yrðu innleiddar hérlendis,“ segir Þórhildur Elínardóttir samskiptastjóri Samgöngustofu.
Nú verða allir sem ætla að fljúga drónum að skrá sig á vefnum flydrone.is og greiða skráningargjald sem er 5.665 krónur. Þeir sem aðeins fljúga léttum drónum undir
250 g þurfa einungis að skrá sig á vefnum. Hins vegar þurfa eigendur dróna sem vega meira en 250 g að kynna sér námsefni á vefnum og taka próf á skráningarvefnum sem veitir þeim svokölluð A1/A3-réttindi til drónaflugs, en réttindin gilda í fimm ár og gilda einnig innan Evrópu.
„Þeir sem hafa sambærileg réttindi frá Evrópusambandslandi og eru skráðir eigendur dróna þurfa ekki að fara í gegnum þetta ferli, og það sama má segja um fólk annars staðar að sem hefur réttindi til drónaflugs innan Evrópu,“ segir Þórhildur.
Í næstu viku verða fyrstu prófin til A2-réttinda haldin hjá Samgöngustofu, 14., 15. og 16. janúar, en búið er að skrá í þessar dagsetningar og Þórhildur segir að væntanlega hafi þeir sem mikið stunda drónaflug skráð sig í prófin til að fá réttindin. Hægt er að fylgjast með á vef Samgöngustofu hvenær næst er laust í próf.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag