Tundurduflið sem kom í veiðarfæri togara var í kvöld dregið út í Eyjafjörð og því komið fyrir á stað þar sem því verður eytt í birtingu.
Þetta kemur fram í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.
Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna málsins fyrr í dag og lögreglan á Norðurlandi eystra lokaði hluta af hafnarsvæðinu á Akureyri eftir að tundurdufl kom í veiðarfæri togarans Bjargar EA.
Duflið kom í síðasta holi veiðiferðarinnar en Björg kom til Akureyrar í morgun. Mat áhöfninn í fyrstu að um gamla járntunnu væri að ræða. Við nánari athugun reyndist hluturinn hins vegar vera tundurdufl.
Tryggja þurfti hvellhettu duflsins áður en hægt var að hefja flutning þess. Að því búnu var tundurduflinu komið fyrir á lyftara og það fært innan hafnarsvæðisins. Af lyftaranum var tundurduflið híft og því komið fyrir í sjó.
Næst var það dregið með dráttarbáti hafnarinnar á heppilegan stað þar sem gert er ráð fyrir að því verði eytt í birtingu.