Stunginn ítrekað í búk, höfuð og útlimi

Árásin var gerð aðfaranótt 9. október. Mynd úr safni.
Árásin var gerð aðfaranótt 9. október. Mynd úr safni.

Maður sem ákærður hefur verið fyrir hnífstunguárás sem átti sér stað í Grafarvogi í október heitir Aðalsteinn Unnarsson og er 27 ára gamall.

Hann er ákærður fyrir tilraun til manndráps.

Ítrekaðar hnífstungur

Í ákærunni, sem mbl.is hefur undir höndum, segir að Aðalsteinn hafi, aðfaranótt 9. október 2024 í Frostafold í Reykjavík, veist að öðrum manni með hníf og stungið hann ítrekuðum hnífstungum í búk, höfuð og útlimi og þannig reynt að svipta manninn lífi.

Við atlöguna hlaut sá særði lífshættulega stunguáverka á brjóstkassa, áverkablóðloftbrjóst og mörg brot á brjósthrygg, og skurði hliðlægt við hægra auga og hægra eyra, auk skurðar á fingrum vinstri handar.

Krefst sex milljóna króna auk vaxta

Er þess krafist að Aðalsteinn verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og er einnig krafist upptöku á hnífnum sem notaður var í árásinni.

Þá krefst maðurinn sem varð fyrir árásinni að ákærði greiði honum bætur að fjárhæð 6.000.000 kr. auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert