Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er stödd í vinnuheimsókn í Úkraínu þar sem hún fundar með ráðamönnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu en þar segir að Þorgerður muni árétta stuðning Íslands við varnarbaráttu Úkraínu og kynna sér stöðu mála.
Utanríkisráðherra átti fund með Andrii Sybiha, utanríkisráðherra Úkraínu, fyrr í dag og frekari fundir eru fyrirhugaðir.
„Ég átti frábæran fund með Andrii Sybiha utanríkisráðherra Úkraínu í dag þar sem ég er nú í minni fyrstu heimsókn sem utanríkisráðherra. Við ræddum áskoranirnar framundan í ljósi áframhaldandi árásarstríðs Rússa og hvernig Ísland getur best stutt við Úkraínu,“ segir Þorgerður Katrín á Instagram.