Kettlingur drapst af völdum skæðrar fuglaflensu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Tíu vikna kettlingur drapst af völdum skæðrar fuglaflensu rétt fyrir jólin en tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði tilkynnti Matvælastofnun í vikunni að kettlingur, sem barst rannsóknarstöðinni til krufningar, hafi greinst með fuglainflúensu.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar en þar segir afbrigðið hafi verið það sama og hefur greinst í villtum fuglum hér á landi frá því í september í fyrra og á einu alifuglabúi í byrjun desember. Matvælastofnun gaf strax fyrirmæli um sóttvarnir til að hindra smitdreifingu og vinnur nú að því að rekja smitið.

Lystarleysi, slappleiki og krampar

Sjúkdómseinkennin í kettinum voru meðal annars lystarleysi, slappleiki, stífleiki, skjálfti, krampar og önnur taugaeinkenni. Matvælastofnun hvetur kattaeigendur um að hafa strax samband við dýralækni verði þeir varir við slík einkenni í köttum sínum.

Fram kemur á vef MAST að læðan sem kettlingurinn var undan og annar kettlingur úr sama goti hafi drepist eftir stutt veikindi tveimur dögum áður. Þau hafi ekki verið rannsökuð. Önnur gotsystkini kettlingsins voru farin af heimilinu áður en veikindin komu upp og eru núna öll einkennalaus.

Kettirnir eru frá Ísafirði en kettlingurinn sem sýkingin greindist í var kominn til Reykjavíkur. Búið er að hafa samband við eigendur allra kattanna.

Matvælastofnun álítur að líklegast sé að kettirnir hafi smitast af sýktum villtum fugli. Að svo stöddu eru engar vísbendingar um smit í fleiri köttum, en Matvælastofnun biður kattaeigendur og dýralækna að vera á verði gagnvart sjúkdómseinkennum sem geta bent til fuglainflúensusmits.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert