Oddviti Suðurkjördæmis aldrei búið í Suðurkjördæmi

Ásthildur Lóa Þórs­dóttir, mennta- og barnamála­ráðherra, er hún mætti á …
Ásthildur Lóa Þórs­dóttir, mennta- og barnamála­ráðherra, er hún mætti á ríkisstjórnarfund í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi og fyrsti þingmaður kjördæmisins, býr í Garðabænum og hefur aldrei á ævinni búið í Suðurkjördæmi.

„Ég er með lögheimili í Garðabæ og hef aldrei búið í Suðurkjördæmi,“ skrifar Ásthildur Lóa í svari við fyrirspurn mbl.is.

„Þegar ég samþykkti að taka oddvitasæti á lista Flokks fólksins 2021 einsetti ég mér að kynnast kjördæminu vel og hef þannig t.d. heimsótt 14 af 18 bæjarstjórum í kjördæminu á kjörtímabilinu til að fræðast um áskoranir og tækifæri á mismunandi stöðum. Ég er gríðarlega þakklát íbúum kjördæmisins fyrir það mikla traust sem þeir hafa sýnt mér.“

Flokkur fólksins sigraði í kjördæminu

Ásthildur Lóa leiddi Flokk fólksins til sigurs í Suðurkjördæmi en flokkurinn fékk 20% atkvæða í kjördæminu, mest allra flokka. 

Margir landsbyggðarþingmenn halda aukaheimili á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda vegna þess að langt er að sækja vinnustaðinn, Alþingi í Reykjavík.

Sumir landsbyggðarþingmenn eru alfarið búsettir á höfuðborgarsvæðinu og hafa lögheimili sitt þar.

Halla, Sigmundur og Víðir með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu

mbl.is hafði samband við landsbyggðarþingmenn Íslands og hér verður farið yfir þá landsbyggðarþingmenn sem eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu eða eru ekki búsettir á eigin lögheimili.

Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, er með lögheimili í Kópavogi en fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum.

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson. mbl.is/María Matthíasdóttir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, er með lögheimili í Garðabæ. Hann hefur verið þingmaður Norðausturkjördæmis síðan árið 2013. Athygli vakti fyrir nokkrum árum þegar hann flutti lög­heim­ili sitt á eyðibýlið Hrafna­björg III í Jök­uls­ár­hlíð fyr­ir alþing­is­kosn­ing­arn­ar 2013.

Hann flutti lögheimilið svo til Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, fyrrverandi þingmanns Miðflokksins, á Akureyri. Sig­mund­ur Davíð bjó aftur á móti hvorki þar né á Ak­ur­eyri, held­ur á höfuðborg­ar­svæðinu, en árið 2018 flutti hann lögheimilið í Garðabæ.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi, er með lögheimili í Reykjavík.

Hún nefnir að framboðið hafi borið að með stuttum fyrirvara og að fjölskyldan hafi ekki tekið neinar ákvarðanir um breytingar, þó það verði skoðað.

„Tengsl mín við Suðurkjördæmi eru þau að ég var í sveit hjá ömmu og afa í Vestur-Skaftafellssýslu, nánast öll sumur og frí fram undir tvítugt og var mikið hjá þeim allt þar til að þau brugðu búi. Þau eru fallin frá en ég held góðum tengslum við sveitina; fer eins oft og ég get enda fáir fátt sem endurnærir jafn mikið og vinna eða dvöl á Síðunni. Ég hlakka til að ferðast sem mest um Suðurlandið á komandi árum sem þingmaður kjördæmisins og vinna að hag þess og landsins okkar í hvívetna,“ segir Halla í samtali við mbl.is.

Halla Hrund Logadóttir
Halla Hrund Logadóttir Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekkert einhver spilling í kringum það“

Sigurjón Þórðarson, oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, er búsettur á Sauðárkróki, sem er í Norðvesturkjördæmi. Lögheimili hans er þó í Siglufirði í Norðausturkjördæmi „þar sem ég hef verið með annan fótinn hjá frænku minni og frænda frá barnæsku“, segir hann í samtali við mbl.is.

Er blaðamaður spurði hann hvort að hann byggi þar og hver tengsl hans væru við Norðausturkjördæmi tók hann ekki sérlega vel í spurningarnar. Hann benti þó á að hann hefði lengi unnið á Norðurlandi.

Þannig starfaði hann sem framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra frá 1992 og var kennari við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, svo dæmi séu nefnd.

„Þó að ég búi á Sauðárkróki, það er ekkert einhver spilling í kringum það. Ég er ekki búinn að fara fram á neinn húsnæðisstyrk. En ef það á að sinna þessu kjördæmi, sem nær frá Djúpavogi alla leið til Siglufjarðar, þá hlýtur að þurfa að koma eitthvað framlag á móti. En ég er svo sem alveg til í að gera þetta öðruvísi,“ segir Sigurjón.

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson. Ljósmynd/Mynd úr safni

Með lögheimili í kjördæminu en búa á höfuðborgarsvæðinu

Ólafur Adolfsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, er með húsnæði á Akranesi og er með lögheimili þar. Hann er búsettur í Reykjavík ásamt unnustu sinni.

Hann hefur búið áratugum saman á Akranesi og er „ekki hættur enn“. Nefnir hann að hann reki meðal annars fyrirtæki á Akranesi, í Borgarbyggð og í Reykjavík.

Ingibjörg Davíðsdóttir, oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, er með lögheimili í Borgarbyggð en er búsett í Garðabæ.

„Hafandi verið í utanríkisþjónustu hef ég þurft að búa víða erlendis og flytja reglulega. Ég dvel mikið í Þverárhlíðinni í Borgarbyggð þar sem ég hef lögheimili á æskuheimili mínu þar sem foreldrar mínir búa. Annars er ég búsett í Garðabæ,“ segir hún í svari við fyrirspurn mbl.is.

Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins í Suðurkjördæmi, er með lögheimili í Vestmannaeyjum. Hann er með íbúð í Vestmannaeyjum á leigu en eftir að hann bauð sig fram til þings hefur hann verið í búsettur í Kópavogi.

Ólafur Adolfsson.
Ólafur Adolfsson. mbl.is/Ágúst

Ætla að búa á báðum stöðum

María Rut Kristinsdóttir, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, er með lögheimili á Flateyri en býr í Reykjavík. Hún er alin upp á Flateyri og er þar áfram með aðsetur.

„Ég myndi eiginlega lýsa því þannig að við rekum heimili í Reykjavík en ætlum okkur að búa á báðum stöðum. Við tókum þá ákvörðun fjölskyldan að búa áfram saman í Reykjavík eftir að ég var kjörin á þingið. Enda eigum við þrjú börn, þar af tvö á leikskólaaldri og samvera með þeim skiptir mig öllu máli. Ég ræddi við fólk sem hefur reynslu af því að eiga ung börn og sinna þingstörfum og flestir hafa tekið þá ákvörðun að búa í Reykjavík með fjölskyldunni á meðan þing starfar hið minnsta,“ segir María í samtali við mbl.is.

María Rut Kristinsdóttir.
María Rut Kristinsdóttir. mbl.is/Ágúst

mbl.is greindi frá því í gær að Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, væri með lög­heim­ili á af­skekkt­um sveita­bæ á Vest­fjörðum í eigu móður hans og fjöl­skyldu.

Eng­inn býr á bæn­um og hann sjálf­ur er bú­sett­ur í Reykja­vík.

Upphaflega kvaðst hann aldrei hafa búið í kjördæminu en leiðrétti sig svo í morgun þegar hann upplýsti um það að hann hefði búið á Sauðárkróki í rúmlega hálft ár, árið 2001.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert