Útför Egils Þórs Jónssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fer fram í dag, en hann verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju klukkan 13.00. Hægt verður að fylgjast með útförinni í streymi hér að neðan.
Egill Þór var teymisstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og fyrrverandi borgarfulltrúi. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut, í návist fjölskyldu sinnar og vina, að kvöldi föstudagsins 20. desember, 34 ára að aldri. Egill Þór hafði undanfarin ár háð hetjulega baráttu við krabbamein.
Egill Þór fæddist í Reykjavík 26. júní 1990 og ólst upp í Breiðholti. Foreldrar hans eru Jón Þór Traustason bifreiðasmíðameistari, f. 1960, sem lést 2013 af slysförum, og Díana Særún Sveinbjörnsdóttir leikskólaliði, f. 1961. Systkini Egils Þórs eru Linda Björk Jónsdóttir og Aron Örn Jónsson.
Egill lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn, en eftirlifandi eiginkona Egils Þórs er Inga María Hlíðar Thorsteinson, f. 1991, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir. Börn þeirra eru Sigurdís, þriggja ára, og Aron Trausti, fimm ára.
Hann helgaði starfsferil sinn fólki með fatlanir og geðræn vandamál. Hann var stuðningsfulltrúi í búsetukjarnanum Rangárseli árin 2015 til 2018 og teymisstjóri í Rangárseli frá 2016.