Tæknilausnir geti dregið úr álagi á kerfið

Helga Dagný Sigurjónsdóttir.
Helga Dagný Sigurjónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt er að mæta stórum áskorunum í heilbrigðiskerfinu á næstu árum með því að innleiða tæknilausnir í auknum mæli.

Ýmsar tæknilausnir sem standa til boða í dag eru hannaðar til að létta álag á starfsfólki í heilbrigðisþjónustu en bæta einnig þjónustu við notendur. Þetta er mat Helgu Dagnýjar Sigurjónsdóttur, deildarstjóra Icepharma Velferð. Fyrirtækið stendur fyrir ráðstefnunni Snjallar lausnir á mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu sem haldin verður Grand hóteli á morgun, fimmtudaginn 9. janúar.

Áætlanir stjórnvalda sem kynntar voru fyrir ári gerðu ráð fyrir að fjölga þyrfti hjúkrunarrýmum um tæplega 1.600 fram til ársins 2040. Stofnkostnaður við hvert rými er metinn um 65 milljónir króna samkvæmt sömu áætlun. KPMG hefur hins vegar nýverið gefið út sjónrænt mælaborð sem varpar ljósi á þörfina fyrir fjölda hjúkrunarrýma næstu 15 árin á Íslandi.

Það er byggt á gögnum frá Hagstofu Íslands, heilbrigðisráðuneytinu, Embætti landlæknis, Byggðastofnun og Sjúkratryggingum Íslands. Þar kemur fram að ef halda á óbreyttri stefnu þurfi í raun að fjölga hjúkrunarrýmum um 3.663 fram til ársins 2040. Þá á vitaskuld eftir að finna út úr því hver á að sjá um það fólk sem þar gæti fengið inni, en mikil umræða hefur verið um mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu eins og staðan er í dag.

Mönnunarvandinn gífurlegur

Helga Dagný segir að það sé bæði tímafrekt og dýrt að byggja fleiri hjúkrunarrými. „Mönnunarvandinn er auk þess gífurlegur og mun aðeins vaxa á næstu árum með öldrun þjóðar. Þótt byggður verði heill hellingur af hjúkrunarrýmum munum við ekki hafa starfsfólk til að sinna þessum rýmum. Þess vegna verðum við að horfa til velferðartækni og ekki vera að finna upp hjólið. Það eru þegar til lausnir sem hafa sannað gildi sitt erlendis og í mikilli notkun þar þvert á heilbrigðiskerfið. Innleiðum þessa tækni og aukum gæði þjónustunnar við okkar fólk sem þarf á því að halda ásamt því að styðja við störf umönnunaraðila.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert