Miklar skemmdir eru á þriðjungi iðnaðarhúsnæðis sem eldur kviknaði í á Blönduósi seint í gærkvöldi. Slökkviliðið leiðir líkur að því að eldurinn eigi uppruna sinn að rekja til kamínu sem ekki var leyfi fyrir.
Ingvar Sigurðsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Austur-Húnvetninga, bendir þó á að lögreglan á Blönduósi fari með rannsókn málsins og verði að svara fyrir hver hin staðfesta orsök er.
„Skemmdir eru miklar á einum þriðja af húsnæðinu og einhverjar reykskemmdir á hinum tveimur þriðju,“ segir Ingvar í samtali við mbl.is.
Hann segir einnig að iðnaðarhúsnæðið hafi ekki verið í góðu ásigkomulagi fyrir eldsvoðann.
„Þetta er kannski svona húsnæði sem hefur verið vanrækt í einhvern tíma.“
Þá nefnir hann að kamína hafi verið í húsnæðinu sem eigi ekki að vera til staðar í iðnaðarhúsnæði og var ekki á neinum teikningum af húsinu.
„Slökkviliðið leiðir líkur að því að þetta hafi verið út frá kamínu og þarna var kamína sem var greinilega ekki á teikningum og ekki leyfi fyrir og ætti ekki að vera í þessu iðnaðarhúsnæði.“
Engin önnur húsnæði í grennd hlutu skaða af brunanum en segir Ingvar að mikið frost hafi gert slökkviliðinu erfiðara fyrir við vinnu sína í gær, en þrjá tíma tók að slökkva eldinn.
Búið er að vera 10-12 gráðu frost á svæðinu.
Það verður allt erfiðara með vatn. Bæði myndast hálka og svo frýs í lögnum og öðru.