„Ýkjukennt“ að segja viðræður „í rífandi gangi“

Verkföll hefjast í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum þann 1. …
Verkföll hefjast í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum þann 1. febrúar, náist samningar ekki. Morgunblaðið/Hari

Kjaraviðræður kennara, ríkis og sveitarfélaga ganga hægt þótt einhver framgangur hafi orðið varðandi einstaka þætti. Enn er óvíst hvort samningar náist fyrir lok janúarmánaðar. Semjist ekki hefjast verkfallsaðgerðir kennara að nýju þann 1. febrúar.

„Ég vil alltaf að þetta gangi betur en þetta gerir, en viðræður eru enn þá í gangi. Við erum enn þá að vinna að sama marki, það hefur ekki breyst,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.

„Það væri kannski ýkjukennt að segja að þær væru í rífandi gangi,“ bætir hann við um stöðu viðræðnanna.

Ríkissáttasemjari segir enn erfitt að segja til um hvort samningar …
Ríkissáttasemjari segir enn erfitt að segja til um hvort samningar náist. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtöl náðst um einstaka þætti

Ágætlega hafi gengið að ná samtölum um einstaka þætti. Þar hafi þokast vel áfram.

„Svo eru aðrir þættir sem ganga síður. Þetta eru samningsaðilar sem leggja af stað frá mjög mismunandi stöðum. Þannig það var alltaf ljóst að þetta væri ekkert áhlaupaverk.“

Finnst þér þannig gangur í þessu að samningar náist fyrir janúarlok?

„Ég get ekkert fullyrt um það. Ég átta mig ekki á því. Þetta er knappur tími, við vissum það allan tímann, en það eina sem við getum gert er að halda áfram.“

Deiluaðilar fundi á hverjum degi.

„Misjafnt á hvaða formi, en samtalið er alveg sleitulaust.“

Tvö atriði tryggð í nóvember

Í lok nóv­em­ber skrifuðu deiluaðilar und­ir ramma­sam­komu­lag um hvernig ætti að standa að frá­gangi kjara­samn­ings við Kenn­ara­sam­band Íslands og veg­ferðina þangað. Þá var verk­föll­um frestað út janú­ar.

Þá voru einnig tryggð tvö atriði í samn­ingn­um sem kenn­ar­ar lögðu áherslu á. Ann­ars veg­ar að á ár­inu 2025 verði tekið skref í átt að jöfn­un launa á milli markaða og launa­töflu­auki var fast­sett­ur.

Verkföll í 14 leikskólum og sjö skólum

Náist samningar ekki fyrir lok þessa mánaðar hefjast verkföll að nýju í fjórum leikskólum þar sem ótímabundnum verkföllum var frestað. Ótímabundin verkföll höfðu verið samþykkt í tíu leikskólum til viðbótar og áttu þau að hefjast 10. desember. Gera má ráð fyrir því að þau skelli einnig á þann 1. febrúar, verði ekki samið, og að leikskólakennarar á samtals fjórtán leikskólum fari þá í verkföll.

Einnig höfðu verið samþykkt verkföll í fjórum grunnskólum, frá og með 6. janúar, sem má gera ráð fyrir að skelli á í febrúar. Tímabundum verkföllum í þremur grunnskólum, sem frestað var í nóvember, verður einnig haldið áfram. Verkföll hefjast því sjö grunnskólum þann 1. febrúar. 

Ekki hefur farið fram atkvæðagreiðsla um frekari verkfallsaðgerðir framhaldsskólakennara, en formaður Kennarasambands Íslands hefur sagt að umræða um þátttöku þeirra standi yfir innan félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert