„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn held ég að áhrifin verði ekkert gífurleg af því að Meta hefur hingað til bara staðið sig mjög illa í þessari staðreyndavakt,“ segir Guðmundur Jóhannsson samskiptastjóri Símans í samtali við mbl.is sem í vikunni greindi frá því að staðreyndavakt Meta með samfélagsmiðlum sínum innan Bandaríkjanna, Facebook og Instagram, yrði lögð af.
„Við ætlum að losa okkur við þá sem hafa verið á staðreyndavaktinni, þar sem þeir hafa verið of hlutdrægir pólitískt séð og hafa dregið meira úr trausti fremur en að efla það, þá sér í lagi í Bandaríkjunum,“ sagði Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Meta, í færslu sem hann birti um málið.
„Þegar við skrollum gegnum forsíðuna á Facebook sjáum við alls konar efni sem við vitum strax, með smá gagnrýninni hugsun, að er bull og vitleysa,“ heldur samskiptastjórinn áfram og bætir því við að staðreyndavakt Meta hafi ekki verið virk nema á því sem fyrirtækið skilgreini sem fjölmiðla eða fréttaveitur.
„Þar hefur verið haldið uppi samvinnu við aðila sem stemma af það sem þarna er sagt, en það breytir því ekki að það er svo ótrúlega mikið á miðlunum þeirra [Meta] sem er bull og vitleysa og byggir ekki á staðreyndum eða sannleika,“ segir Guðmundur og telur einsýnt að aflagning staðreyndavaktarinnar hafi því hverfandi áhrif fyrir allan þorra notenda.
„Ef maður reynir að horfa á þetta úr þrjátíu þúsund fetum þýðir þetta kannski að upplýsingaóreiðan verði eitthvað aðeins minni og einhverjir aðilar, sem hafa kannski verið að stunda dreifingu falsfrétta eða koma af stað einhvers konar upplýsingaóreiðu, hafi kannski stærri leikvöll fyrir vikið því þeir þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af því að verða kannski gripnir eða sýnt fram á að efni þeirra sé bull,“ telur Guðmundur.
Þessir aðilar muni þar með bara verða vissari í sinni sök um að þeir geti látið móðan mása á miðlunum án þess að rönd verði við reist. En telur samskiptastjórinn þá að dreifing vísvitandi rangra upplýsinga sé mjög snar þáttur í notkunargildi samfélagsmiðla?
„Á alheimsvísu já, á Íslandi ekki eins mikið, hér er þetta öðruvísi þar sem þetta hefur mun meira að segja á stærri mörkuðum eins og í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þetta hefur verið sérstaklega virkt þegar kosningar eða aðrir ámóta stórviðburðir standa fyrir dyrum. Það ekki við að nema örlitlu leyti við á Íslandi,“ svarar Guðmundur og klykkir út með því að aflögð staðreyndavakt Meta muni tæplega hafa nokkur áhrif sem vert sé að nefna á hinn venjulega Íslending sem notar Facebook.