„Aldrei verið svona hrædd“

Dröfn er búsett í Los Angeles. Minnst tíu vinir hennar …
Dröfn er búsett í Los Angeles. Minnst tíu vinir hennar hafa misst heimili sín í gróðureldum þar í borg. Samsett mynd/AFP/Aðsend

„Þetta er bara allt svo skelfilegt að ég hef aldrei verið svona hrædd síðan ég flutti til Los Angeles.“

Þetta segir Dröfn Ösp Snorradóttir Rozas, sem hefur verið búsett í Kaliforníu síðastliðin tólf ár og kveðst hún þó ekki kalla allt ömmu sína.

„Ég er nú svo heppin að ég er ekki með kvíða og geng ekki í gegnum lífið hrædd en ég er bara búin að vera í panikki síðustu 48 klukkustundir og er búin að vera skjálfandi eins og Chihuahua-hundur,“ segir Dröfn í samtali við blaðamann mbl.is.

Heimili hennar í Highland Park í austurhluta Los Angeles er skammt undan Eaton-eldinum, en alls herja gróðureldar á fjögur svæði í borginni. Hún segir eldinn færast nær og nær heimili hennar en að hraðbraut sem skilji svæðin að hafi haldið eldinum í skefjum fram til þessa.

„Borgin er bara í ljósum logum,“ segir Dröfn.
„Borgin er bara í ljósum logum,“ segir Dröfn. AFP

Tíu vinir misst heimilin

Ekkert sé þó vitað um framhaldið og segir Dröfn að hún hafi fengið rýmingarviðvörun í gærkvöldi, þar sem henni hafi verið gert að búa sig undir að flýja heimilið með litlum sem engum fyrirvara.

Hún segir minnst tíu nána vini sína hafa misst heimili sín og allar sínar veraldlegu eigur í Altadena á síðustu tveimur sólarhringum. Ekkert standi eftir nema skorsteinninn hjá flestum.

Airbnb hafi blessunarlega boðið þeim sem hafi þurft að flýja fría gistingu og segir Dröfn vinahóp sinn standa þétt saman og að flestir dvelji hjá vinum og vandamönnum.

Sjálf lifi hún nú í ótta um að missa heimili sitt til tólf ára hvað úr hverju enda geti eldur raunar borist að heimili hennar úr hvaða átt sem er.

„Borgin er bara í ljósum logum,“ segir Dröfn og bendir á að á bilinu 50-75 prósent af Palisades-svæðinu sé brunnið til kaldra kola.

Sviðin jörð í Palisades.
Sviðin jörð í Palisades. AFP

Lítið sem ekkert öryggisnet 

Hún segir sorglegan raunveruleika blasa við í Bandaríkjunum þar sem lítið sem ekkert öryggisnet sé til staðar til þess að grípa fólk í ástandi sem þessu.

Margir, þar með talið hún sjálf, hafi verið kallaðir til vinnu í dag þrátt fyrir að í borginni ríki neyðarástand og að margir standi frammi fyrir því að missa heimili sín og jafnvel að þurfa að standa undir megninu af kostnaðinum sjálfir.

„Tryggingarfélögin hérna keppast við að tryggja fólk minna og taka tryggingarnar frá okkur,“ segir Dröfn.

Til að bæta gráu ofan á svart hafi tilvonandi forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, nýtt tækifærið til að skjóta á ríkisstjóra Kaliforníu og tjáð sig um hve mikill harmleikur eldarnir séu fyrir dýrustu fasteignir landsins. 

„Eins og það hjálpi fólki sem er hér á vergangi.“

Santa Ana-vindarnir eru sagðir hafa mikil áhrif á íbúa og …
Santa Ana-vindarnir eru sagðir hafa mikil áhrif á íbúa og eru gjarnan kenndir við djöfulinn að sögn Drafnar. AFP

Vonarglæta að vinda djöfulsins lægi

Hún segir einu vonarglætuna eins og er vera að farið sé að draga eilítið úr Santa Ana-vindunum, sem ásamt miklum þurrki eru meginorsök hraðrar útbreiðslu eldanna.

„Þetta er auðvitað afleiðing loftslagsbreytinga, hér er náttúrulega beinþurrt,“ segir Dröfn.

Vindarnir, sem yfirleitt eru kenndir við dýrlinginn Önnu, móðurömmu Jesú Krists, kallast hnúkaþeyr á íslensku og eru hlýir og þurrir vindar af fjöllum og geta verið afar hvassir og hviðugjarnir.

Hún bætir við að vindarnir séu oft kallaðir vindar djöfulsins í Kaliforníu þar sem þeir séu taldir hafa mikil áhrif á þjóðfélagið og jafnvel tengdir við aukna glæpatíðni og óeirðir í borginni. Það sýni sig t.d. í því að sumir hafi verið staðnir að því að reyna að kveikja viljandi í eftir að gróðureldarnir hófust.

„Þangað til Santa Ana-vindana fer að lægja getum við raunar ekki frjálst um höfuð strokið.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert