Forstjóri Skeljungs á Íslandi segir háa skatta vera helstu ástæðu þess að eldsneytisverð er það þriðja hæsta í heimi sem stendur.
Þannig hafi t.a.m. kolefnisgjald sem hækkað var um 59% um áramótin þegar farið beint út í verðlag.
Við það hækkaði allt eldsneyti um u.þ.b. 10 krónur á hvern seldan lítra í landinu.
Gróflega reiknað fara um 170 krónur af hverjum seldum bensínlítra í vasa ríkisins ef miðað er við algengasta verð á bensíni á Íslandi sem er um 320 krónur eða um 53% af heildarverði. Fyrir tveimur árum var hlutfallið 49,7%.
Svipað er uppi á teningnum þegar kemur að verði á dísilolíu þar sem hlutfallið er gróflega rétt undir 170 krónum sem fer til ríkisins.
Verð á bensínlítra var í lok desember einungis hærra en á Íslandi í tveimur löndum í heiminum, Mónakó og Hong Kong, samkvæmt samantekt á vefnum GlobalPetrolPrices.com sem fylgist með eldsneytisverði í 168 löndum.
Þá er verð á lítra af dísilolíu einungis hærra í Hong Kong en á Íslandi.
Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, sem sér um dreifingu en ekki smásölu eldsneytis, segir allt benda til þess að 59% hækkun kolefnisgjalds um áramótin hafi farið beint út í verðlag. Þannig hefur algengasta verð hækkað úr 310 krónum í 320 krónur á einu bretti um áramótin eins og sjá má á gasvaktin.is.
Costco selur ódýrasta eldsneytið á landinu. Bensínverð fór t.a.m. úr 266 krónum í 276 krónur við hækkun kolefnisgjalds.
Algengt verð á völdum staðsetningum hinna olíufélaganna er um 291-292 krónur sé tekið mið af verðvöktuninni Gsmbensin.is.
Slíkt verð er eingöngu að finna á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er margt sem útskýrir bensínverð á Íslandi. Við erum fjarlæg eyja norður í Atlantshafinu og í stóru harðbýlu landi. En langstærsta skýringin eru háir skattar sem eru meira en helmingur eldsneytisverðs. Þeir skattar eru krónutölutengdir með virðisaukaskatti sem kemur ofan á þegar eldsneytið er selt til neytenda,“ segir Þórður, spurður um það hvers vegna Ísland sé með þriðja hæsta eldsneytisverð í heimi.
Þrátt fyrir nýlega hækkun á bensínverði hérlendis hefur heimsmarkaðsverð haldist fremur stöðugt síðastliðið ár.
Heimsmarkaðsverð á olíu er 723 dollarar á tonn þegar kemur að bensíni en 690 dollarar á dísil. Fer því nærri að heimsmarkaðsverð á hvern bensínlítra sé rúmar 75 krónur en um 70 krónur á dísil.
Eldsneytisverð er háð nokkrum þáttum: álagningu, sköttum, gjöldum og innkaupaverði. Að sögn Þórðar kaupir Skeljungur til að mynda eldsneyti af norska ríkisfyrirtækinu Equinor með álagningu umfram heimsmarkaðsverð, greidd eru óveruleg hafnargjöld við komu birgða til landsins, því næst ber að nefna kolefnisgjald, vörugjald og sérstakt vörugjald á bensín. Þá kemur álagning smásalans og að lokum leggst svo virðisaukaskattur upp á 24% ofan á eldsneytisverðið þegar neytandinn dælir eldsneytinu á bílinn.
Hlutur ríkisins þegar kemur að dísileldsneyti nefnist kolefnis- og olíugjald, auk virðisaukaskatts og fylgir sömu lögmálum og ofangreind verðlagning.
Við þetta bætast svo kvaðir frá Orkumálastofnun og Umhverfisstofnun um að eldsneytið innihaldi íblöndunarefni sem gerir bensín dýrara í vinnslu en umhverfisvænna um leið að sögn Þórðar.
Þegar horft er á skiptingu bensínlítrans eftir krónutölum og ef miðað er við algengasta verð upp á 320 krónur þá skiptist krónutalan svona:
Taka ber fram að krónutölur breytast ef bensín er verslað á bensínstöðvum sem selja ódýrara bensín. Athygli vekur að ef miðað er við algengasta verð á eldsneyti þá hefur heimsmarkaðsverðið ríflega fjórfaldast þegar það er komið á ökutækið.
Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu hafa orðið ríflegar krónutöluhækkanir á gjöldum á bensíneldsneyti á liðnum árum.
Kolefnisgjald hefur hækkað um 86% frá árinu 2020, vörugjald á bensíni um 20% og sérstakt vörugjald á bensíni um 20%. Á sama tíma hefur verðlag hækkað um 35,6% ef miðað er við tímabilið janúar 2020 til desember 2024.
Kolefnisgjald dísileldsneytis hefur einnig hækkað um 86% en olíugjald um 20% frá árinu 2020.