Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, kveðst sýna því skilning að landsbyggðarþingmenn fái aukna styrki til þess að geta sinnt kjördæmum sínum. Hún segir jákvætt að landsbyggðarþingmenn séu með lögheimili í sínum kjördæmum, jafnvel þótt þeir búi þar ekki, til þess að útsvar þeirra renni til sveitarfélaga í þeirra kjördæmi.
„Það er auðvitað eðlilegt að þingmenn þessara landsbyggðarkjördæma séu með eitthvað álag fyrir það að vera þingmenn þessara kjördæma,“ segir hún og nefnir sem dæmi kostnað vegna ferðalaga eða ef þeir halda auka heimili.
Allir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna fá greiddar 185.500 krónur á mánuði í húsnæðis- og dvalarkostnað skv. reglum Alþingis um þingfararkostnað. Sumir landsbyggðarþingmenn búa þó á höfuðborgarsvæðinu og eru jafnvel einnig með lögheimili þar.
„Ég held að sjónarmiðið sé það að gera mönnum kleift að rækja kjördæmin. Auðvitað orkar það tvímælis ef þingmaður er þekktur af því að gera það ekki. Kjósendur kjördæmisins veita þingmönnum aðhald að því leyti,“ segir Sigríður.
Þingmaður sem á heimili utan höfuðborgarsvæðis og þiggur greiðslur fyrir daglegar ferðir milli heimilis og Reykjavíkur um þingtímann fær greiddan rúmlega þriðjung húsnæðis- og dvalarkostnaðar, eða 68.800 krónur mánaðarlega.
Ef þannig háttar til að þingmaður sem á aðalheimili utan höfuðborgarsvæðis haldi annað heimili í Reykjavík getur hann skv. reglum Alþingis óskað eftir að fá greiddar 74.200 krónur á mánuði vegna þess.
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, er með lögheimili á afskekktum sveitabæ á Vestfjörðum í eigu móður hans og fjölskyldu.
Enginn býr á bænum og sjálfur býr Eyjólfur í Reykjavík. Hann hefur aldrei búið á bænum.
Sigríður telur þó aðdáunarvert að hann greiði útsvar í sveitarfélag í hans kjördæmi.
„Þá rennur að minnsta kosti útsvarið til kjördæmisins. Það getur skipt miklu máli fyrir litlar byggðir, eins og fyrir vestan, að fá útsvarstekjurnar frá Eyjólfi,“ segir Sigríður.
Almennt telur Sigríður að verið sé að þyrla upp moldviðri þar sem þessi laun séu gagnsæ og búin að taka breytingum á síðustu árum.
„Auðvitað má þetta ekki vera stjórnlaust og menn geti bara gengið í og komið með hvaða reikninga sem er, það er heldur ekki alveg þannig. En þetta með húsnæðisstyrki og landsbyggðina, ég hef alveg samúð með sjónarmiði landsbyggðarþingmanna að vilja halda lögheimili í kjördæminu. Þótt það væri ekki nema bara til þess að láta skattana renna þangað,“ segir Sigríður.
Það eru þó ekki allir landsbyggðarþingmenn sem eru með lögheimili sitt skráð í eigin kjördæmi, enda engin skylda um slíkt.
Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi, Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingar í Suðurkjördæmi, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu.
Útsvar þeirra rennur því ekki til sveitarfélaga í þeirra kjördæmum.
Ef alþingismaður þarf að aka mikið vegna starfa sinna er miðað við að hann noti bílaleigubíl. Þegar fyrirsjáanlegt er að hann muni aka meira en 15.000 km ber honum að nota bílaleigubíl sem skrifstofa Alþingis lætur í té og e kostnaðurinn greiddur af Alþingi.
Margir landsbyggðarþingmenn nýta sé þetta og getur fjárhæðin stundum numið vel yfir milljón krónur á ári á þá þingmenn sem nýta sér þetta úrræði.