Fjáraukalög verða lögð fram

Daði Már Kristófers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, ræddi við mbl.is.
Daði Már Kristófers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, ræddi við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármála- og efnahagsráðherra mun leggja fram fjáraukalög vegna breytinga á Stjórnarráðinu. Hann segir fjáraukalögin ekki lögð fram vegna aukinna útgjalda umfram fjárlög 2025.

Þetta segir Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is.

„Það liggur fyrir að við munum þurfa að leggja fram fjáraukalög í tengslum við breytingar á Stjórnarráðinu. Ákvarðanir um annað hafa ekki verið teknar,“ segir Daði.

Gert er ráð fyrir því að þing komi saman í lok mánaðar eða í byrjun febrúar. 

Ekki lögð fram vegna neinna aukinna útgjalda

Hann segir þetta fyrst og fremst snúast um það að það verða breytingar á samþykktum fjárlögum vegna þess að málaflokkar eru að færast til á milli ráðuneyta.

„Það kallar einfaldlega á breytingu á lögunum. Nýtt Stjórnarráð kallar á nýja framsetningu á þeim fjárlögum sem þegar liggja fyrir.“

Aðspurður segir hann fjáraukalögin ekki lögð fram vegna neinna aukinna útgjalda. 

Breytingar á Stjórnarráðinu

Viðskipta- og ferðamálaráhlut­inn verður færður yfir í mat­vælaráðuneytið og verður að at­vinnu­vegaráðuneyti. Menn­ing­ar­ráðuneytið sam­ein­ast í há­skóla-, viðskipta- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyti.

„Við verðum þá með menn­ing­ar-, ný­sköp­un­ar- og há­skólaráðuneyti,“ sagði Kristrún Frosta­dótt­ir er hún kynnti breytingarnar þegar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var kynntur.

Hús­næðismál­in verða flutt úr innviðaráðuneyt­inu yfir í fé­lags­málaráðuneytið. Innviðaráðuneyti verður þannig að sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyti.

Fé­lags- og vinnu­markaðsráðuneytið verður að fé­lags- og hús­næðismálaráðuneyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert