Unnsteinn Manuel hlýtur Bjartsýnisverðlaunin

Tónlistarmaðurinn Unnsteinn Manúel Stefánsson.
Tónlistarmaðurinn Unnsteinn Manúel Stefánsson. mbl.is/Karítas

Tónlistarmaðurinn og handritshöfundurinn Unnsteinn Manuel Stefánsson tók við Íslensku bjartsýnisverðlaununum 2024 á Kjarvalsstöðum nú síðdegis. Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti verðlaunin.

Í samtali við Morgunblaðið segir Unnsteinn það mikinn heiður að hljóta verðlaunin og að hann líti jafnframt á þau sem hvatningu til þess að halda áfram á sömu braut. 

Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Rio Tinto á Íslandi, álverið í Straumsvík, hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá árinu 2000. Forseti Íslands hefur frá upphafi verið verndari verðlaunanna. 

Í umsögn dómnefndar segir: „Á ferli sínum hefur Unnsteinn sýnt fram á ótvíræða listræna hæfileika og fjölhæfni og fundið farvegi til þess að þroskast og takast á við nýjar áskoranir og fjölbreytt verkefni. Hann tekur virkan þátt bæði í menningartengdum verkefnum í ýmsum listgreinum en leggur jafnframt mikilvægum góðgerðar- og samfélagsmálum lið. Þar á ofan miðlar hann af þekkingu sinni og reynslu til yngri kynslóða. Unnsteinn Manuel Stefánsson er verðugur fulltrúi Íslensku bjartsýnisverðlaunanna árið 2024.“

Dómnefndina skipa Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist. 

Halla Tómasdóttir forseti afhenti verðlaunin.
Halla Tómasdóttir forseti afhenti verðlaunin. mbl.is/Karítas

Vítamínsprengja inn í nýtt ár 

Unnsteinn segist hafa verið hugsi yfir hugtakinu bjartsýni eftir að honum var tilkynnt að hann ætti að hljóta Bjartsýnisverðlaunin.

„Ég er búinn að vera svo svakalega svartsýnn, yfir pólitíkinni og allri heimsbyggðinni, en þetta er rosalega mikil vítamínsprengja inn í nýtt ár, að hefja árið á að fá þessi verðlaun,“ segir hann og bætir við að listamenn mæti töluverðu mótlæti og því sé gott að fá þessa hvatningu.

Þetta hafi minnt hann á að það séu mikil forréttindi að fá að vinna við listir þótt það sé ekki alltaf auðvelt. „Ég myndi ekki vilja gera neitt annað.“

Viðtal við Unnstein Manuel má finna á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, föstudag. 

mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert