Afleiðingar fjögurra ára vatnstjóns koma fram

Ekki er um að ræða skemmdir á húsinu, heldur eingöngu …
Ekki er um að ræða skemmdir á húsinu, heldur eingöngu munum sem voru í geymslu í kjallaranum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Rakaskemmdir og mygla sem komið hafa í ljós í Lögbergi, þar sem lagadeild Háskóla Íslands hefur aðsetur, má rekja til vatnstjóns sem varð þegar aðalkaldavatnsæð Veitna við Suðurgötu fór í sundur í árið 2021. 

Ekki er um að ræða skemmdir á húsnæðinu sjálfu, heldur eingöngu á munum sem voru í geymslu í kjallaranum. Þetta staðfestir Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

„Það var ekki gætt nógu vel að því að hreinsa út úr geymslum. Það er í raun dót sem var inni í geymslum sem er að mygla. Þetta er ekki alvarlegt mál gagnvart húsinu sjálfu, en það er alltaf slæmt að fá myglu og við tökum það mjög alvarlega. Við fáum alltaf til okkar sérfræðinga í slíkum málum til að vinna úr því,“ segir Kristinn.

Betur fór en á horfðist í fyrstu

Nú er unnið að því að þrífa og mygluhreinsa húsnæðið og búið er að fara yfir munina sem voru í geymslunni. Þá verður tækifærið notað til að fara yfir rýmið og lagfæra það sem þarf.

„Ég held að þetta hafi farið betur en menn héldu í upphafi. Fyrst héldum við að við þyrftum að farga öllu sem var þarna inni, en þess þurfti ekki.“

Aðallega var um pappír og bækur að ræða og bendir Kristinn á að pappírinn sé rakasækinn og þar hafi myndast kjöraðstæður fyrir myglu.

Mikið magn vatns flæddi um ganga Háskólans í janúar 2021.
Mikið magn vatns flæddi um ganga Háskólans í janúar 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Taka allar ábendingar alvarlega

Aðspurður hvort það hafi fundist rakaskemmdir á fleiri stöðum eftir lekann í janúar 2021 svarar Kristinn því neitandi, en talið er að um 2.500 tonn af vatni hafi lekið um ganga bygginga háskólans þegar vatnsæðin fór í sundur á sínum tíma.

„Það er nú samt þannig að myglan er alls staðar og við þurfum bara að vera á varðbergi, og erum það. Við bregðumst við öllum ábendingum sem við fáum.“

Rakaskemmdirnar og myglan í Lögbergi komu í ljós þegar farið var að mæla vegna ábendinga sem bárust.

„Það er ekki endilega þannig að fólk sjái þetta. Sumir fá óþægindi löngu á undan öðrum og við reynum að taka það alvarlega og bregðast við því. Eina ráðið er alltaf að mæla, það er ekki hægt að segja nei ef maður sér það ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert