Ökumaður sendibifreiðar sem lést í árekstri við vinnuvél á gatnamótum Lækjargötu og Vonarstrætis í september var óhæfur til aksturs sökum áhrifa örvandi fíkniefnis. Mikið magn örvandi fíkniefnis greindist við blóðrannsókn.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur skilað rannsóknarskýrslu um slysið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er einn með stöðu sakbornings í málinu, en það er enn til rannsóknar hjá lögreglunni og hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort það fari til ákærusviðs.
Ökumaðurinn virti ekki biðskyldu þar sem hann beygði til vinstri frá Vonarstræti inn á Lækjargötu og ók í veg fyrir vinnuvélina sem ók Lækjargötu í átt að Reykjavíkurtjörn.
Gafflar framan á vinnuvélinni rákust inn í farþegarými sendibifreiðarinnar með þeim afleiðingum að ökumaðurinn lést.
Samkvæmt skýrslunni var meginorsök slyssins akstur ökumanns sendibifreiðarinnar undir áhrifum fíkniefna en aðrar orsakir slyssins voru að ökumaður hennar virti ekki biðskyldu og ók í veg fyrir vinnuvélina.
Rétt fyrir slysið lyftust gafflar vinnuvélarinnar hratt upp að framan en nefndin ályktar að ökumaður hennar hafi óafvitandi ýtt til stýripinna með þeim afleiðingum að gafflarnir lyftust upp fyrir og í árekstrinum.
Vinnuvélin var ekki skráð í ökutækjaskrá en óheimilt er að aka óskráðum vinnuvélum án skráningarmerkja í almennri umferð. Þannig átti vinnuvélin ekki að vera í akstri í almennri umferð heldur bar að flytja hana milli vinnustaða með öðrum hætti.
Ökumaður vinnuvélarinnar greindist þá með slævandi lyf í blóði í lækningalegum skammti, eins og það er orðað í skýrslunni. Í leiðbeiningum með lyfinu er tekið fram að ekki megi aka ökutæki meðan lyfið er tekið þar sem það geti skert athygli og viðbragðsflýti og þar með aksturshæfni.