„Bíðum eftir næsta atburði“

Úlfar segir að lítið sé um ferðamenn í Grindavík.
Úlfar segir að lítið sé um ferðamenn í Grindavík. mbl.is/Óttar

„Það má segja að við séum að bíða eftir næsta atburði og vitum ekki hvort það verður kvikuhlaup eða eldgos. Jörðin hagar sér með svipuðum hætti og fyrr.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is en líklegt er að enn og aftur dragi til tíðinda á Sundhnúkagígaröðinni um eða eftir næstu mánaðamót. Sex eldgos urðu á gígaröðinni á síðasta ári en því síðasta lauk 9. desember.

Dregið var úr öllu viðbragði á Svartsengissvæðinu eftir að ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað að fara af hættustigi á óvissustig í kjölfar goslokanna í desember.

„Við köllum þetta svona rólegri tíma en við erum auðvitað allaf á varðbergi og fylgjumst grannt með þróun mála,“ segir hann.

Frá síðasta eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni sem lauk 9. desember.
Frá síðasta eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni sem lauk 9. desember. mbl.is/Karítas

Unnið á sólarhringsvöktum í varnargörðunum

Úlfar segir að á meðan óvissustig sé í gildi fundi aðgerðarstjórn og vettvangsstjórn tvisvar sinnum í viku. Hann segir að vettvangsstjórnin sé við störf í Grindavík en þar séu bæði lögreglumenn, slökkviliðsmenn og starfsmenn á vegum Landsbjargar til staðar.

„Það var ekki unnið við varnargarðana við Svartsengi á milli jóla og nýárs en sú vinna hófst að nýju eftir áramótin og er unnið á sólarhingsvöktum,“ segir Úlfar.

Úlfar segir að lítið sé um ferðamenn í Grindavík en bærinn er opinn og starfsemi hjá þeim fyrirtækjum sem hafa verið með rekstur inni í bænum sé að aukst nú í byrjun árs. Hann segir að undanfarna daga hafi verið dvalið í um 30 húsum í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert