Fagfélögin gagnrýna harðlega verðhækkanir á matvöru og öðrum nauðsynjavörum og segja þær vinna gegn samningsforsendum stöðugleika- og velferðarkjarasamninga.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fagfélögunum: Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Rafís og Matvís.
„Vakin er athygli á að samningsforsendur Stöðugleika- og velferðarkjarasamningsins kveða á um að 12 mánaða verðbólga í ágúst í ár mælist ekki yfir 4,95%. Boðaðar verð- og gjaldskrárhækkanir vinna bersýnilega gegn því markmiði,“ segir í tilkynningunni.
Skora fagfélögin á birgja og matvöruverslanir að draga áform um verðhækkanir til baka og vinna með samfélaginu að því markmiði að draga úr verðbólgu og að áframhaldandi lækkun vaxta.
Vísað er til þess að talsmenn stærstu matvöruverslana landsins hafi í desember boðað umtalsverðar verðhækkanir á matvöru. Formaður Neytendasamtakanna hafi í kjölfarið sagt að menn virtust vera að panta verðhækkanir.
Þá sé áhugavert að skoða þróun og horfur verðlags á matvöru í löndunum kringum okkur.
„Í Peningamálum kemur fram að verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands sé á niðurleið. Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (World Economic Outlook) kemur fram að vöruverð á heimsvísu sé á niðurleið.“
Í sömu skýrslu komi fram að evrópsk fyrirtæki geti tekið á sig launahækkanir án þess að fleyta þeim út í verðlagið.
ASÍ hafi einnig bent á að hrávöruverð á matvöru hafi lækkað um 2% á síðasta ári og miklar verðhækkanir áranna 2022-2023 þannig gengið til baka.
Í ljósi þessa skora fagfélögin á birgja og matvöruverslanir að draga áform um verðhækkanir til baka.