Skemmtistaðurinn og barinn Gaukurinn, sem lengi hefur verið hluti af næturlífi höfuðborgarbúa, er tekinn að starfa með breyttu sniði. Eftir miðnætti um helgar mun staðurinn breytast í hálfgerðan næturklúbb þar sem plötusnúðar stíga á stokk og spila danstónlist á staðnum, í stað hinnar hefðbundnu rokktónlistar sem yfirleitt ómar innandyra.
Á öðrum dögum og fyrir miðnætti um helgar verður gamla góða rokktónlistin þó áfram við völd.
Gunnar Rúnarsson hefur verið eigandi Gauksins síðan í lok Covid-faraldursins ásamt félaga sínum Jóni Óla Jónssyni. Gunnar segir í samtali við mbl.is að rekstur staðarins hafi ekki verið auðveldur. Nefnir hann hækkandi leigu og launakostnað sem dæmi.
„En til þess að bæta gráu ofan á svart þá lendum við í því að það eru svo mörg stærri bönd sem hafa spilað hjá okkur sem koma ekki aftur eftir Covid,“ segir Gunnar.
Hann segir stærri böndin sem eitt sinn tróðu upp á Gauknum vera farin að spila á stærri stöðum eins og Hörpunni, Iðnó eða Gamla Bíói og því hafi aðdráttarafl Gauksins minnkað síðustu ár.
„Og við höfum verið að keyra líka á dragsýningum til dæmis og svona listrænum viðburðum og það hefur verið samdráttur í því. Við finnum samdrátt hjá okkur þarna og það er erfiðara og erfiðara að keppa við stóru tónleikahúsin og markaðshlutdeild okkar hefur minnkað. Salan hefur bara minnkað, það er bara einfaldlega þannig.“
Segir Gunnar að í gegnum tengsl við aðra staði í miðbænum hafi þeir Jón heyrt af viðburði sem hefur verið rekinn á næturklúbbi í nágrenninu og kallast viðburðurinn Fever Club, sem er í raun hálfgerður sýndarnæturklúbbur sem spilar danstónlist.
„Við sjáum það að salan dettur mikið niður hjá okkur eftir miðnætti. Þeirra viðburður hefst eftir miðnætti og við sáum fram á það kannski að við gætum mögulega samnýtt húsið og boðið þá okkar viðskiptavinum að vera aðeins áfram.“
Hann segir breytingarnar vera eingöngu gerðar út frá viðskiptalegu sjónarhorni en að ekki sé búið að ákveða hvort þær verði endanlegar. Enn sé verið að leggja mat á hlutina.
„Markmiðið er að Gaukurinn starfi áfram, helst eins óbreytt og hægt er. Auðvitað verða einhverjar breytingar. Það er bara óhjákvæmilegt.“
Eins og staðan er því í dag mun Gaukurinn starfa að öllu óbreyttu um helgar fram að miðnætti en þá tekur Fever Club við.
„Þau eru bara eins og hljómsveit sem kemur inn til þess að byrja með. Viðburður sem kemur inn eftir miðnætti. Það er sett upp DJ-borð og stemmningin breytist. Það fer úr því að vera þungarokk eða indie-rokk yfir í danstónlist.“
Segir Gunnar að Fever Club hafi fyrst verið sett up um áramótin og haldið áfram síðustu helgi.
„Svo sjáum við bara til hvort það verði eitthvað framhald á því eða ekki.“
Aðspurður segir Gunnar að ekki séu allir ánægðir með breytingarnar og tekur hann fram að það sé eðlilegt.
„Þú átt eitthvað svona pláss í þínum huga. Einhvern svona viðverustað sem þú ferð alltaf á og svo er honum breytt og þú náttúrulega vilt það ekkert og það vilja það ekkert allir.“
Hann segir marga hins vegar hafa tekið breytingunum vel og þá sérstaklega í ljósi þess að staðurinn geti nú verið opinn lengur.
„Við vorum farin að neyðast til þess að loka snemma af því að starfsmannakostnaðurinn er svo hár.“
Hann segir breytingarnar vera í þróun og að verið sé að ræða þær við starfsmenn staðarins sem og fyrrum starfsmenn og fastagesti.
„Það verður alltaf eitthvað. Við vitum það bara. Það munu einhverjir hætta að koma. Það munu einhverjir verða fúlir. Svo þurfum við bara aðeins að leyfa þessu að slípast saman. Leyfa fólki að venjast þessu og vonandi gengur þetta bara allt að óskum.“
Hann tekur þó fram að Gaukurinn verði áfram með viðburði sem séu í forgangi yfir Fever Club.
„Við erum með Doomcember, Deathfestival, Reykjadoom og svo erum við alltaf auðvitað með á Airwaves og höfum alltaf tekið þátt í Gay Pride. Þetta eru viðburðir sem standa mikið lengur yfir. Þeir eru alveg til þrjú að morgni. Þá er ekki pláss fyrir Fever club.“
Gunnar tekur þó fram að lokum að málið sé í skoðun og að ekki sé víst enn þá hvort viðburðurinn verði fastur liður á Gauknum eða bara einstaka sinnum.
„Ég er náttúrulega að tala frá mínu sjónarhorni. En þau sem standa á bak við Fever Club hafa kannski aðeins aðra skoðun og vilja sjá þetta alltaf. Og þá bara vinnum við út frá því.“