Farið hefur hlýnandi, sér í lagi á vestari hluta landsins, hægt og bítandi síðan síðdegis í gær og útlit er fyrir áframhaldandi hlýindi næstu daga.
Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að löngum frostakafla sé að ljúka en þó sé víða enn snjór á vegum og sums staðar ís. Þá sé von á einhverri úrkomu – skúrum á Suður- og Vesturlandi.
„Þetta er allt saman að fara að blotna. Veghiti var nálægt tíu stiga frosti víða í gær og því hætt við að frjósi þegar þetta lendir á vegum.“
Mögulega verði akstursskilyrði krefjandi og flughált á köflum á meðan snjó og klaka tekur upp. Þegar líði á, veghiti hækkar, snjór og ís á vegum bráðnar og yfirborðið hættir að frjósa verði skilyrðin betri og betri að sögn Daníels.
„Vegir þar sem er snjór og klammi, eins og útvegir og safnvegir eru líklegir til að vera mjög hálir sem og íbúðagötur á höfuðborgarsvæðinu.“
Segist Daníel gera ráð fyrir því að Vegagerðin og aðrir sem sinni snjómokstri og hálkuvörnum geri viðeigandi ráðstafanir, t.d. verði sandað og/eða saltað meira eftir atvikum.
Daníel segir um rakin skipti að ræða í lofthita. Það haldi áfram að hlýna á austari hluta landsins á morgun og hlýindin verði ríkjandi meira og minna út komandi viku.
Ástæða er til að hvetja fólk að hafa auga með niðurföllum og hreinsa eftir þörfum. Fylgjast má með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is.