Færri greindust með inflúensu í fyrstu viku ársins samanborið við síðustu viku ársins 2024.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis sem byggir á mælaborði sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar.
Samtals greindust 35 með inflúensu í fyrstu viku ársins en þar af lágu 11 einstaklingar inni á Landspítala sem eru færri en á sama tímabili á síðasta ári.
Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en níu einstaklingar voru í aldurshópnum 65 ára og eldri og fimm voru yngri en fimm ára.
Ef tímabilið frá sumri og til loka árs 2024 er borið saman við fyrri ár má sjá að talsvert færri inflúensur greindust á þessu tímabili á árinu 2024 samanborið við sama tímabil árin 2022 og 2023, en á þeim árum greindust óvenju margir með inflúensu.
Faraldurinn virðist fara fyrr af stað í vetur með fleiri greiningar á tímabilinu fram að áramótum ef árin fyrir heimsfaraldur COVID-19 eru skoðuð, en hafa ber í huga að færri sýni voru tekin fyrir faraldurinn sem kann að skýra fjölgunina.
Á árunum fyrir heimsfaraldur Covid-19, greindist meirihluti inflúensutilfella eftir áramót svo í ljós á eftir að koma hvort núverandi inflúensufaraldur verði umfangsmeiri eða hvort hann sé einfaldlega fyrr á ferðinni og tilfellum fari þá einnig fækkandi fyrr.
RS-veirusýkingum hefur farið fækkandi undanfarnar þrjár vikur en í fyrstu viku ársins greindust 48 með RS, þar af helmingur börn undir eins árs aldri.
Innlögnum á Landspítala vegna RS-veirusýkingar fækkaði einnig niður í ellefu, en þar af voru átta í aldurshópnum 65 ára og eldri og tvö börn undir eins árs aldri.
Sex einstaklingar greindust með COVID-19 en enginn lá á spítala vegna veirunnar til samanburðar við þá sex sem voru inniliggjandi með veiruna í síðustu viku ársins 2024.
Búast má við áframhaldandi inflúensu og RS-veirusýkingum næstu vikur og bendir embætti Landlæknis á að bólusetningar séu áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga.
Bólusetningar vegna Covid-19 og inflúensu eru enn í boði og einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu en þessir hópar eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum.
Þátttaka í bólusetningum hefur verið undir væntingum en þátttaka 60 ára og eldri í bólusetningum gegn inflúensu það sem af er þessum vetri er nú um 45%.