Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Á þessu geta verið undantekningar og sérreglu er að finna í lögum um þingmenn og ráðherra þar sem segir að lögheimili þeirra megi vera á stað sem þeir búi ekki á, ef þeir hafi búið þar áður. Ekki er hægt að sjá að allir þingmenn standist kröfurnar fyllilega.
Þjóðskrá segir í svari við fyrirspurn mbl.is að sérregla gildi um lögheimili þingmanna og ráðherra. Ef þingmaður eða ráðherra vill vera með lögheimili á stað sem hann býr ekki á, þá þarf hann að hafa haft þar fasta búsetu áður.
„Þar kemur fram að alþingismanni sé heimilt að eiga lögheimili á þeim stað þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður tilkynni hann aðsetur sitt til Þjóðskrár Íslands. Sama gildi um ráðherra. Er tekið fram að ákvæðið geti átt við um maka alþingismanna eða ráðherra og börn þeirra,“ segir í svari frá Finni Marteini Sigurðssyni, lögfræðingi hjá Þjóðskrá, við fyrirspurn mbl.is.
mbl.is greindi frá því á dögunum að Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, væri með lögheimili að Hrafnabjörgum 1, afskekktum sveitabæ í Lokinhamradal í Arnarfirði í eigu móður hans og móðursystur.
Enginn býr á bænum og hann sjálfur er búsettur í Reykjavík. Hann hefur aldrei búið á bænum áður að eigin sögn.
Almennt er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.
„Með fastri búsetu í skilningi laganna er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika,“ segir í svari Þjóðskrár.
Í svarinu kemur fram að Þjóðskrá gæti ekki tjáð sig um einstök mál.
Sigurjón Þórðarson, oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, sagði í samtali við mbl.is í á dögunum að hann væri búsettur á Sauðárkróki í Norðvesturkjördæmi en væri með lögheimili á Siglufirði í Norðausturkjördæmi hjá frændfólki.
„Þar sem ég hef verið með annan fótinn hjá frænku minni og frænda frá barnæsku,“ sagði hann um staðsetningu lögheimilis síns að Laugarvegi 15 á Siglufirði.
mbl.is hafði samband við Sigurjón símleiðis og spurði hvort að hann hefði búið áður á Laugarvegi 15. Sigurjón sagði að það kæmi blaðamanni ekki við, en bað svo um skriflega spurningu.
Sigurjón neitaði að svara skriflegu spurningunni um það hvort að hann hefði áður búið á Laugarvegi 15. Hann sagði að hann myndi svara spurningunni með grein.
Greinin birtist í dag á Facebook og er ekki að sjá að hann hafi enn almennilega svarað spurningunni.
„Ef við tökum mig sem dæmi, nýkjörinn þingmann Norðausturkjördæmis, þá er heimili mitt annars vegar á Sauðárkróki, þar sem ég hef búið um áratugaskeið og hins vegar er ég með aðsetur hjá aldraðri móður minni í Norðurmýrinni í Reykjavík.
Lögheimilið er engu að síður á Laugarvegi á Siglufirði, hjá skyldfólki þar sem ég hef haft annan fótinn inn á heimilinu frá barnæsku, m.a. þegar ég vann í fiski hjá Þormóði ramma. Ég hef engan ávinning af því að skrá lögheimili mitt á Siglufirði, annan en að geta kosið mig sjálfan í Alþingiskosningum. En mér finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt að útsvarið mitt renni til þess kjördæmis sem ég er kjörinn fulltrúi fyrir,“ skrifar hann í greininni sem birtist á facebook-síðu Flokks fólksins.