Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að stefnt sé að því að auka ekki útgjöld umfram samþykkt fjárlög á þessu ári. Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á fjármálaáætlun, velferðarmál og orkumál á komandi vorþingi.
Þetta segir Kristrún í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun.
Spurð hvaða mál ríkisstjórnin leggi áherslu á á komandi vorþingi nefnir hún fjármálaáætlun, velferðarmál og orkumál.
Hún segir að ríkisstjórnin vilji tryggja ákveðin velferðarúrræði, sem hún segir ekki kosta mikið en séu engu að síður mikilvæg.
„Til dæmis höfum við rætt um það að gera meðferðarúrræðum kleift að hafa opið á sumrin, við viljum að aldursviðbót vegna örorku haldist áfram og þetta er nokkuð sem við teljum að sé hægt að samþykkja tiltölulega hratt,“ segir hún.
Við 67 ára aldur fara öryrkjar yfir í greiðslukerfi ellilífeyris og þá fellur aldursviðbótin út.
Hún nefnir að Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hafi kynnt umfangsmiklar tillögur og þingmál sem varða rammaáætlun, leyfisveitingar og orkuöryggi.
„Þetta er svona þrennt sem kemur upp,“ segir Kristrún.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is í byrjun vikunnar að hann myndi leggja fram fjáraukalög vegna breytinga á stjórnarráðinu. Þó stæði ekki til að leggja þau fram vegna neinna aukinna útgjalda.
Gerir þú ráð fyrir því að það verði einhver aukaútgjöld sem þið þurfið að ráðast í?
„Við erum að vinna að því að það verði ekki viðbótarútgjöld á þessu ári. Ef við förum í einhverjar lítils háttar upphæðir vegna mikilvægra velferðarmála, sem við vitum að brenna á fólki, og munu frekar skapa kostnað síðar verður haft mikið fyrir því að safna tekjum með hagræðingu á móti,“ segir Kristrún.
Hún kveðst leggja mikla áherslu á að það verði ekki aukin útgjöld á árinu vegna pólitískra ákvarðana en það geti þó gerst í lok árs að leggja þurfi fram fjáraukalög ef einhver málaflokkur hafi verið vanáætlaður.
„Vonandi þarf ekki á því að halda,“ segir Kristrún.