Á allra vörum boða nýtt þjóðarátak til að byggja nýtt kvennaathvarf. Skipuleggendur segja ofbeldi gegn konum og börnum faraldur í samfélaginu.
„Það má segja að heimilisofbeldi sé næstum orðið faraldur í samfélaginu, þar sem varla má opna fjölmiðla án þess að heyra um gróft ofbeldi sem bitnar á konum og börnum, oftast.”
Átakið verður lokahnykkurinn í því að byggja nýtt kvennaathvarf sem verður sérsniðið að þeim þörfum sem blasa við í dag, þar sem starfsemin hefur breyst mikið undanfarin ár.
Er það fyrsta verkefni Á allra vörum í sex ár en átakinu verður formlega hrint af stað föstudaginn 21. mars og mun ljúka með stórum söfnunarþætti á RÚV laugardaginn 5. apríl.
Frá árinu 2008 hefur átakið valið nokkur verðug verkefni og safnað fyrir þeim og hafa meðal annars stýrt söfnunum í þágu Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og geðgjörgæsludeildar Landspítalans svo eitthvað sé nefnt.
Um milljarður hefur safnast í þessum átökum, bæði með beinum fjárframlögum og gjöfum en þetta verður tíunda söfnunin sem Á allra vörum tekur að sér en sú fyrsta í sex ár sökum heimsfaraldursins.