Eftirspurn eftir veiðileyfum í Elliðaárnar fyrir næsta sumar er tvöfalt meiri en framboðið, en ríflega 1.500 félagsmenn í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, SVFR, höfðu sent inn umsókn þegar umsóknarfrestur rann út um áramót.
Af þeim sóttu um 1.300 manns um veiðileyfi á laxveiðitímanum en um 200 i vorveiðinni. Á heimasíðu félagsins segir að dregið verði úr umsóknum með slembivali, þannig að allir þeir sem eru með gilda umsókn eigi jafna möguleika.
„Það hefur orðið sprenging í veiðileyfasölu og í Elliðaánum sérstaklega og heilt yfir virðist vera mikil aukning í eftirspurn,“ segir Ingimundur Bergsson framkvæmdastjóri SVFR í samtali við Morgunblaðið.
Elliðaárnar eru sem fyrr vinsælasta veiðisvæði SVFR, en næstar í röðinni koma svo Korpa og Leirvogsá. Allar hafa veiðiárnar þrjár verið að gefa vel og skýrir það væntanlega hina miklu ásókn að hluta, en einnig er stutt að sækja fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Ingimundur segir hina miklu eftirspurn eftir veiðileyfum í Elliðaánum skýrist að einhverju leyti af hagstæðu verði ásamt því að þangað er stutt að fara fyrir flesta félagsmenn. Verð veiðileyfa í Elliðaánum á laxveiðitímanum er frá tæpum 18 þúsund krónum upp í rúmar 27 þúsund krónur, en leyfin gilda í hálfan dag. Veiðileyfi í Korpu eru einnig seld í hálfan dag í senn.
„Elliðaárnar eru mjög þægilegar og svo eru þær auðvitað pakkaðar af fiski,“ segir Ingimundur og nefnir að félagsmenn í SVFR horfi bjartsýnir fram á veginn.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag