Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að enn sé verið að móta hvernig sé best fyrir ríkisstjórnina að kynna hagræðingaraðgerðir í kjölfar vinnu í tengslum við sparnaðarráð almennings. Hún vonast til þess að hægt sé að ráðast í fyrstu aðgerðir í vor.
Þetta kemur fram í samtali hennar við mbl.is í lok ríkisstjórnarfundar í morgun.
„Sumt mun vera aðgerðir sem hægt er að sýna strax á spilin í, eitthvað sem við getum vonandi ráðist strax í á þessu vorþingi. Annað er eitthvað sem þarf að spinna og vefja inn í fjármálaáætlunina. Enn annað kemur strax í fjárlögunum og svo eru líka tillögur sem taka lengri tíma og við viljum að komist í gegnum Stjórnarráðið á þessu kjörtímabili,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.
Síðan að opnað var fyrir umsagnir í samráðsgátt um hvernig megi hagræða í rekstri ríkisins þá hafa yfir 2.800 umsagnir borist.
Kristrún segir að starfsmenn í fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu muni vinna úr umsögnum almennings í samráðsgátt og að gervigreind verði nýtt til að hjálpa við verkefnið.
„Við fáum hagræðingarhóp líka sem fer yfir stóru myndina,“ segir Kristrún.
Þrír fulltrúar munu sitja í þeim hópi og Kristrún Frostadóttir mun velja þríeykið í samráði við formenn samstarfsflokkanna.