Kristín Birna Garðarsdóttir, fv. Íslandsmeistari í akstursíþróttum, lést á Landakoti 1. janúar síðastliðinn, 62 ára að aldri, af völdum Alzheimer.
Kristín Birna fæddist 25. ágúst 1962. Foreldrar hennar eru Anna María Samsted og Garðar Guðmundsson. Systur eru Kamilla Björk, Linda og Lilja.
Kristín Birna ólst upp Seltjarnarnesi, bjó síðan í Reykjavík en síðustu árin búið í Mosfellsdal ásamt sinni fjölskyldu.
Hún starfaði m.a. í versluninni Virkni í Ármúla, Litaveri og síðar sem skrifstofustjóri á fasteignasölunum Remax Lind, Remax Bæ og Fasteignasölunni Bæ í Kópavogi.
Kristín Birna eignaðist mótókrosshjól 16 ára og varð fyrsta konan til að keppa í mótókrossi. Tók hún þátt í Íslandsmeistarkeppnum í íþróttinni árin 1979 til 1986 en hætti er hún eignaðist sitt fyrsta barn.
Hún lét það ekki stöðva sig sumarið 1986 með að taka þátt í rallýkrossi á lánuðum bíl frá vini sínum og varð fyrsta konan til að keppa. Árið 1990 eignaðist hún sinn eigin bíl og varð Íslandsmeistari í rallakstri þrjú ár í röð. Eitt árið keppti hún ólétt af sínu öðru barni, komin fjóra mánuði á leið.
Hún tók einnig þátt í torfærukeppni sumarið 1990 á sérútbúnum bíl, varð fyrsta konan til þess og hafnaði í 7. sæti. Jafnframt keppti Kristín Birna í sparakstri, ökuleikni, brautarkeppnum, kvartmílu o.fl. Þá sat hún í sjö ár í stjórn Vélhjólaíþróttaklúbbsins.
Kristín Birna hafði einnig mikinn áhuga á flugi, fór í flugnám 1977 ásamt manni sínum og tók einkaflugmannspróf þremur árum síðar. Átti hún hlut í tveimur flugvélum.
Eftirlifandi maki Kristínar Birnu er Guðbergur Guðbergsson. Þau kynntust árið 1977 og bjuggu því saman í 47 ár, áttu sameiginlegt áhugamál í aksturíþróttunum og fluginu. Börn þeirra eru Anna Björk og Viktor og barnabörnin fjögur.
Útför Kristínar Birnu fer fram mánudaginn 13. janúar kl. 13 frá Grafarvogskirkju.