„Það er mjög þungt hljóð í fólki,“ segir Pétur Maack Þorsteinsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, en félagsmenn felldu kjarasamning sem bar með sér 3,25% hækkun á byrjunarlaunum sálfræðinga hjá ríkinu og svo hækkun upp á 3,5% á næstu árum eins og verið hefur á almennum markaði.
Hann segir málið í grundvallaratriðum snúast um að sálfræðingar séu að hafna þessari hækkun. Að sögn Péturs ber tilboðið með sér að byrjunarlaun muni hækka úr 610 þúsund krónum í 634 þúsund krónur.
„Það þarf að horfa á það að stofnanasamningar hafa ekki hreyfst í mörg á. Þessi hækkun á kjarasamningi er því ekki nóg að mati sálfræðinga,“ segir Pétur.
Spurður segir hann að síðastliðið vor hafi sálfræðingar lagt upp með kröfugerð sem þeim hafi ekkert orðið ágengt með. Fram undan er að funda með sálfræðingum hjá ríkinu og fara yfir þá kröfugerð aftur.
„Hún er orðin árs gömul og svo munum við funda með samninganefnd ríkisins geri ég ráð fyrir,“ segir Pétur.
Að sögn hans voru engir aðrir þættir í kjarasamningi sem telja mætti til kjarabóta. Þannig hafi sálfræðingar hjá ríkinu t.a.m. starfað í 36 tíma vinnuviku undanfarin ár.
296 sálfræðingar höfðu atkvæðarétt og var samningi hafnað af tæplega 77% félagsmanna. Talsvert færri stöðugildi eru þó hjá ríkinu en 296 og segir Pétur það helgast af því að margir velji að starfa á stofu meðfram starfi hjá ríkinu til að drýgja tekjurnar.
Hann segir sálfræðinga hafa verkfallsrétt. „Við erum ekkert komin að því að ræða aðgerðir en það er vissulega einn af möguleikunum,“ segir Pétur.